c

Pistlar:

11. maí 2022 kl. 9:07

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Þarf að horfa á rekstrartölur sveitarfélaga?

Ekkert þróað hagkerfi lætur laun opinberra starfsmanna leiða launaþróun. Menn þurfa ekki að hafa lært mikið í hagfræði til að skilja það eins ágætir og opinberir starfsmenn þó eru, grunnur framleiðslugetu hagkerfisins byggist á öðrum þáttum. Þá vita flestir að það er ekki góð lexía að láta fjölgun opinberra starfsmanna vera meiri en á starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Að endingu myndu allir þá vinna hjá hinu opinbera.

Hugsanlega skilja sósíalistar þetta ekki en þeir eru svolítið sér á báti með sitt alltumlykjandi ríkisrekstrarmódel en við fáum núna smá innsýn í hvernig þeir starfa í raun og veru hjá Eflingu. Fulltrúi þeirra til borgarstjórnar talar fyrir stórfjölgun opinberra starfsmanna og að taka upp Bæjarútgerð Reykjavíkur á ný. Það hefði einhver mátt benda henni á að starfsfólki hjá borginni hefur fjölgað um 2.000 manns á síðustu fjórum árum og er núna um 12.000 talsins. Á síðustu tveimur árum fjölgaði stöðugildum sveitarfélaga um 8,5%, eða úr 21.982 í 23.854. Á sama tíma fjölgaði starfandi á almennum vinnumarkaði aðeins um 900.borgstarf

En þrátt fyrir þessa visku hagfræðinnar sem hér hefur verið rakin þá hækkuðu laun opinberra starfsmanna mun meira en laun á almennum vinnumarkaði á síðustu árum og er það einkum launaþróunin á síðasta ári sem skýrir þennan mun. Í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans (sem er já, að stærstum hluta í eigu ríkisins) er bent á að milli janúarmánaða 2021 og 2022 hafi laun á almenna markaðinum hækkað um 6,9 prósent en á sama tímabili hækkuðu laun hjá hinu opinbera um 8 prósent. Þar af hækkuðu laun hjá ríkinu um 8,2 prósent en hækkunin hjá sveitarfélögum nam 7,7 prósentum.

„Óvenju mikið bil myndaðist á milli launaþróunar á opinbera og almenna markaðnum í upphafi síðasta árs og virðist það ekki fara minnkandi,“ segir í Hagsjá. Í janúar 2021 hækkuðu laun á almenna markaðnum um 2,9 prósent en um 5,6 prósent hjá hinu opinbera. Ef litið er aftur til janúar 2015 hafa laun opinberra starfsmanna hækkað um 74 prósent en á sama tíma hafa laun á almennum vinnumarkaði hækkað um 65 prósent.

Þarf að horfa á rekstrartölur sveitarfélaga?

Reglulega gera kjósendur upp framtíðarsýn sína í kosningum, nú á laugardaginn varðandi sveitarfélög. Margir horfa til meiri þjónustu en flestir ættu að átta sig á að rekstur sveitarfélaga verður að vera sjálfbær. En á milli tekna ríkis og sveitarfélaga eru mörg grá svæði sem stjórnlyndir stjórnmálamenn nýta sér. Laun og launatengd gjöld námu 99% af útsvarstekjum íslenskra sveitarfélaga á fyrri hluta síðasta árs. Þá hækkuðu launaútgjöld þeirra um 11,5% frá 2019 til 2020, á sama tíma og tekjur þeirra jukust um 3,7%. Alls voru 35 sveitarfélög rekin með halla á árinu 2020. Þessi staða mun hafa afleiðingar.

Staða sveitarfélaganna er vissulega misjöfn innbyrðis, en í nýlegri samantekt Viðskiptaráðs er horft heildstætt á sveitarstjórnarstigið og fjármál sveitarfélaga. Skoðum nokkur atriði sem Viðskiptaráð bendir á og ætti að hafa áhrif á laugardaginn.

Aðeins eitt sveitarfélag lækkað útsvar

Við blasir hjá sveitarfélögum að mikið misræmi er á gjöldum og tekjum, eins og sveitarfélögin eru rekin er óhjákvæmilegt að þau þurfa meiri tekjur. Aðeins eitt af hverjum fimm sveitarfélögum er ekki að innheimta hámarksútsvar samkvæmt úttekt Viðskiptaráðs og aðeins eitt sveitarfélag hefur lækkað útsvar frá síðustu kosningum. Sex hafa hækkað útsvarið sem er í hámarki hjá mörgum sveitarfélögum sem mörg hver kalla eftir meiri tekjum.

Norðurlandamethafi í hækkun á fasteignasköttum

Viðskiptaráð segir að Ísland sé Norðurlandamethafi í hækkun á fasteignasköttum. Frá árinu 2014 hafa tekjur af fasteignasköttum hækkað um 43% á verðlagi ársins 2021. Fasteignaskattar voru og eru háir í norrænum samanburði og fyrirkomulag þeirra óhagkvæmt segir Viðskiptaráð. Almennt má segja að tekjustofnar sveitarfélaga séu frekar ógagnsæir, bæði hvað varðar umgjörð og innheimtu. Þegar horft er til síðustu fjögurra ára er ljóst að fjárfestingar hafa vaxið jafnt og þétt og nálgast árin fyrir efnahagshrun, en áhrif heimsfaraldursins eru þó vel merkjanleg.borg


Taka má undir þá skoðun að mikilvægt sé að sveitarfélög séu nægilega burðug til að veita fólki og fyrirtækjum nauðsynlega þjónustu og því þurfi að hvetja enn frekar til sameiningar þeirra. Það sameiningarferli stendur nú yfir þó sumum finnist það gerast hægt um leið og það virðist trufla fjárhagslega sýn margra sveitarfélag. Það er eins og margir hugsi að Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga rétti það sem rétta þarf en greiðslur til sveitarfélaga með færri en 250 íbúa eru rúmlega sextán sinnum hærri en þar sem íbúar eru yfir 20 þúsund. Höfum í huga að ekkert kemur í stað þeirra gömlu ráða að eyða ekki um efni fram, spara og sýna ráðdeildarsemi, hafi einhver áhuga á því yfir höfuð.