Óttaðist mest af öllu að vera yfirgefin

Valgerður Sif er gestur í hlaðvarpsþættinum Sterk saman.
Valgerður Sif er gestur í hlaðvarpsþættinum Sterk saman.

Valgerður Sif eða Sif eins og hún kallar sig er 33 ára, gift, tveggja barna móðir úr Breiðholti. Hún er gestur Tinnu Barkardóttur í hlaðvarpinu Sterk saman. Hún segist eiga flókna fjölskyldusögu sem hafi mótað hana. 

„Mamma og pabbi tóku mig í fóstur þegar ég var níu mánaða en blóðmóðir mín er yngsta systir mömmu sem hún ól upp frá 11 ára aldri en þá lést amma mín.“

Blóðmóðir Sifjar bjó í næstu blokk og eignaðist þrjú önnur börn með miklum ofbeldismanni. Það var samgangur á milli heimilanna og þekkti hún hálfsystkini sín alla tíð vel.

„Blóðmóðir mín var með þessum ofbeldismanni mjög lengi og það gekk mikið á. Ég man vel eftir einu atviki þegar ég svaraði í heimasímann og heyrði bara öskur og kall á hjálp því hann væri að drepa hana. Ég var sallaróleg, labbaði inn til mömmu, vakti hana og lét hana vita. Þetta var orðið normið okkar, því miður.“

Hataði systur sína

Sif á systur sem er tveimur árum yngri en hún en blóðmóðir hennar átti hana með ofbeldismanni sínum. Sif segir að samband þeirra systra hafi verið stormasamt. 

„Greyið stelpan, ég var ömurleg við hana. Það næsta sem ég hef komist því að finna út af hverju er höfnunin sem ég fann fyrir frá blóðmóður minni sem ég tók út á henni. Af hverju vildi hún mig ekki en gat svo eignast þrjú önnur börn, skilurðu?“

Lengi vel glímdi Sif við hræðslu við að vera yfirgefin sem hafi skemmt fyrir henni vinsambönd í gegnum tíðina en líka ástarsambönd.

„Ég hélt að ég þyrfti alltaf að þóknast öllum, segja já við öllu leyfa fólki að ráðskast með mig svo ég yrði ekki yfirgefin.“

Datt ekki í hug að hún myndi lenda í þessu 

Sif segir frá kynnum sínum af strák sem hún átti í ástarsambandi við. Hún lýsir því hvernig hann hafi hægt og rólega náð að einangra hana frá vinum og fjölskyldu. Sjálf segist hún aldrei hafa trúað að hún sjálf myndi lenda í ofbeldissambandi eftir að hafa horft upp á blóðmóður sína og samband hennar við ofbeldismanninn sem hún var með. Sambandið endaði á hrottalegan hátt og sat Sif uppi með skömmina.

„Ég gat ekki sagt neinum frá því hvað hafði gerst, ég blokkaði atburðinn lengi, kenndi mér um, fannst ég heimsk. Mörgum árum seinna varð ég svo reið út í sjálfa mig fyrir að hafa ekki kært hann og bjargað öðrum frá honum. Allar þessar hvað ef hugsanir.“

Það tók Valgerði Sif 13 ár, tvö börn og hjónaband til að segja upphátt hvað hafði komið fyrir hana.

Aðspurð hvort fæðing barna hennar og brjóstagjöf hafi síðar triggerað kynferðisofbeldið sem hún varð fyrir játar hún því.

„Ég vissi þetta ekki en er að leysa enn eitt dæmið í hausnum á mér, þetta er alveg ljósaperumóment og ég er í sjokki á jákvæðan hátt,“ segir Valgerður Sif.

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál