„Ég var mjög ung farin að reykja, drekka og stunda kynlíf“

Halla Björg hefur verið edrú í rúmlega tíu mánuði.
Halla Björg hefur verið edrú í rúmlega tíu mánuði. Ljósmynd/Tinna Barkardóttir

Halla Björg er 33 ára, fimm barna móðir að norðan sem hefur verið í bata frá fíknisjúkdómi í rúmlega tíu mánuði. Hún er gestur Tinnu Barkardóttur í hlaðvarpsþættinum, Sterk saman.

Halla ólst upp hjá einstæðum föður sínum á Húsavík en hann bjó heima hjá foreldrum sínum. 

„Ég fékk dásamlegt uppeldi, fullt af ást og kærleika. Ég var litla gullið hans afa,“ segir Halla og bætir við að kannski hafi eitthvað vantað á einhverjum tímapunkti því það var aldrei neitt samband við mömmu.

Halla var sterk félagslega og átti mikið af vinum en var typískt ADHD-barn í skólanum, erfið og gekk ekki vel að læra.

„Ég var mjög ung farin að reykja, drekka og stunda kynlíf. Ég man eftir mér 13 ára á skólalóðinni með Camel filterslausan, í fyrsta skipti sem ég reykti,“ segir hún.  

16 ára gömul eignaðist Halla sitt fyrsta barn og hætti að reykja og drekka um leið og hún komst að því að hún væri ólétt. 

Eftir að hún eignaðist annað barnið sitt, einu dóttur sína, fór hún að reykja kannabis og prófa sig áfram í ólöglegum vímuefnum. Auk þess tók hún inn mikið af ávanabindandi lyfjum sem læknir á geðdeild á Akureyri skrifaði upp á fyrir hana. Með þessari blöndu þróaði Halla með sér alkóhólisma sem átti eftir að fylgja henni. 

„Barnsfaðir minn sagði einu sinni við mig að ég væri mesti alkóhólisti sem hann þekkti, þá vissi ég ekki að ég væri alkóhólisti. Það er nefnilega svo ótrúlegt að það er ekki magnið sem maður notar heldur þessi líðan sem gerir mann að alkóhólista, ég var alltaf á flótta,“ segir hún. 

Nýr maður dæmdur í fangelsi 

Halla náði að vera edrú í nokkur ár og kynntist nýjum manni. Þau voru ekki búin að vera lengi saman þegar hann var ákærður fyrir hræðilegan glæp og dæmdur í fangelsi. Halla hætti þó ekki með honum þrátt fyrir þetta og héldu þau ástarsambandi sínu áfram. Hún lagði mikið á sig til þess að heimsækja hann í fangelsið á Litla Hrauni. 

„Ég bjó á Akureyri og keyrði alltaf að heimsækja hann. Þar fengum við úthlutað herbergi og þar urðu tvíburarnir mínir til,“ segir Halla. 

Meðgangan var erfið og ekki bætti úr skák á barnsfaðirinn var í fangelsi. Halla segir að fólk hafi haft miklar skoðanir á lífi hennar. Tvíburarnir fæddust svo á þrítugustu viku og voru teknir með bráðakeisara. 

„Ég var kyrrsett í Reykjavík í sjúkraíbúð því það var mikil hætta á að börnin mín myndu deyja, annar, báðir eða hreinlega við öll þrjú. Þegar ég var send í keisara var hringt á Hraunið og barnsfaðir minn fékk að koma, hann fékk pásu frá afplánun, ótímabundið, vegna aðstæðna. Börnin okkar börðust á gjörgæslu fyrir lífum sínum,“ segir hún. 

Varð að hafa hann sjá sér

Halla segir að fjallað hafi verið um mál hans í fjölmiðlum og hún skilji reiðina sem fólk upplifði. 

„Ég skil það mjög vel já, ég hefði samt ekki geta gert þetta ein. Í dag er þetta líka rosalega dýrmætt vegna þess sem síðan gerðist.“

Halla og barnsfaðir hennar voru á gjörgæslu og vökudeild með tvíburana sína í tvo og hálfan mánuð en fyrir kraftaverk lifðu þeir báðir.

„Hann var síðan kallaður inn í afplánun aftur en fékk að sitja inni á Akureyri og ég var dugleg að heimsækja hann með strákana.“

Féll í fangelsinu 

Einn daginn hringdi hann, eins og oft og var hann þá fallinn, hann átti nokkurra ára sögu í neyslu. Halla setti honum mörk, sem hún var ekki vön að gera og stóð við þau. 

„Hann hótaði að enda þetta ef ég gerði ekki eins og hann sagði og ég sagði já, gerðu það þá bara. Ég var bara þreytt á þessu og vildi losna úr símanum en hann endaði líf sitt þarna,“ segir Halla.  

„Ég held, og kýs að trúa því að þetta hefði alltaf endað svona, ef ekki þarna þá seinna. Hann var góður maður og held hann hefði aldrei getað lifað með því sem hann gerði og var dæmdur fyrir. Hann gerði það í neyslu.“

Við tók erfiður tími en Akureyrarbær aðstoðaði hana mikið. Árið 2018 ákvað Halla svo að aðstoða konu við barneignir og fór tvisvar í gegnum eggheimtu með tilheyrandi hormónagjöfum og breytingum á líkama og öðru.

„Það veitti mér bara hlýju í hjartað eftir þessa erfiðu tíma að geta aðstoðað fólk.“

Ég stoppaði á meðan ég var ólétt

Áður en hún varð edrú fyrir tíu mánuðum síðan var hún búin að vera í því, eins og hún orðar það, meira og minn í fjögur ár, mínus eina meðgöngu.

„Síðasta samband var bara neyslusamband í raun. Ég stoppaði á meðan ég var ólétt, mér líður alltaf vel líkamlega á meðgöngu en þetta var ógeð andlega. Hann fæddist svo og tíu dögum seinna héldum við skírn og þrítugs afmælið mitt saman og ég varð háð kókaíni þá.“

Hún talar um hvernig neyslan var leyndarmál í langan tíma, flótti milli íbúða, sveitarfélaga, undan sjálfri sér og sambandinu.

„Ég missti svo allt, tók krakkpípuna framyfir börnin mín, beitti ógeðslegu ofbeldi, fjárkúgaði pabba minn, seldi líkama minn og hefði selt bestu vinkonu mína fyrir næsta skammt.“

Halla fékk séns á að fara á Krýsuvík, hún hitti þar vin sinn sem hélt henni þar fyrstu tvær vikurnar.

„Það eru fjórir dánir sem voru með mér á Krýsuvík, þessi vinur minn og ein af mínum bestu vinkonum líka. Að sjá fólkið þeirra í kistulagningunum og jarðarförunum gaf mér auka kraft, ef ég fell aftur mun ég setja mitt fólk í þessar ömurlegu aðstæður. Aðstæður sem ég hef verið í. Velja föt, skipta hinu og þessu, og jarða.“

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál