Geðheilsa er langhlaup ekki sprettþraut

Guðrún Jónsdóttir fjölskylduráðgjafi.
Guðrún Jónsdóttir fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Árni Sæberg

Guðrún Jónsdóttir fjölskylduráðgjafi á EMDR stofunni skrifar um tengls og geðlyfjanotkun í nýjum pistli. Hún segir að tengsl við ummmönnunaraðila í frumbernsku hafi áhrif á það hvernig fólk upplifir heiminn á fullorðinsárum. 

Upplýsingar um geðlyfjanotkun íslenskra barna eru sláandi. Börn undir 14 ára aldri fá ávísað margfalt miðað við jafnaldra sína á hinum Norðurlöndunum. Hér hafa 3,7% barna fengið ávísað geðlyfjum fyrir 14 ára aldur. Hlutfallið er 0,8% í Svíþjóð, 0,21% í Danmörku og 0,15% í Noregi. Þannig að miðað við Danmörku er þetta nærri átjánfalt og miðað við Noreg fá íslensk börn ávísað 25 sinnum meira af geðlyfjum. Að auki nota Íslendingar meira af geðlyfjum á hverja 1000 íbúa en öll Norðurlöndin. Aukning á sjö ára tímabili er 25%, þvert á aldurshópa, en 16% hjá yngsta hópnum.

Lyf geta verið eina svarið í stöðu margra. Þau bjarga lífum og bæta lífsgæði fólks. En þegar svona mikill munur kemur fram, miðað við nágrannalöndin, vakna spurningar.

Hvað segja þessar tölur okkur?

Þessar tölur veita upplýsingar um greiningar og lyfjaávísanir, en segja ekkert um ástæður né orsakir. Getur verið að hér á landi séu læknar gjarnari á að gefa einkennum nafn og þar af leiðandi að ávísa lyfjum. Hinn möguleikinn er að á Íslandi sé einfaldlega meiri vanlíðan og kvíði og þetta sýni hárrétt viðbragð við því. En mörgum spurningum sem þessum er ósvarað.

Líta Íslendingar öðruvísi á vandamál og takast á við þau á annan hátt en grannþjóðir okkar? Ef til vill ræðum við síður um erfiðar tilfinningar, höfum lágan þröskuld fyrir sársauka og erfiðum aðstæðum. Hamingja er stöðutákn í stað þess að vera ávinningur af þrautseigju og fólk vill skjótfengar lausnir.

Er meira álag á fjölskyldum á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum? Er vinnumarkaðurinn ófjölskylduvænni? Er skólakerfið í grundvallaratriðum ólíkt? Skýrir það þennan mun? Mikið hefur verið rætt um álag á fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu á Íslandi og bent á að skortur sé á úrræðum. Kerfið kallar á viðbrögð sem ekki eru til staðar eða ekki með nægjanlegt bolmagn að bregðast við þörfinni. Fjölbreytileiki í þjónustu við fjölskyldur er mikilvægur og aðgengi að fyrirbyggjandi aðferðum nauðsynlegur.

Hvað er fjölskyldumeðferð?

Fjölskyldumeðferð er gagnreynd aðferð, sprottin úr kenningum félags- og sálfræði. Litið er á fjölskylduna sem eina heild, nokkurs konar kerfi þar sem allir hafa ákveðinn tilgang.

Tengsl við umönnunaraðila í frumbernsku hafa áhrif á hvernig við upplifum heiminn og litar skilning okkar á honum fram á fullorðinsár. Sambönd seinna á lífleiðinni mótast af þessum fyrstu tengslum. Megin forsendan er að ekkert gerist í tómarúmi og enginn er eyland.

Fjölskyldufræðingur skoðar tengsl og kerfið sem við erum sprottin úr. Hann reynir að finna út af hverju það er eins og það er, hver eru hlutverkin, hvar eru skekkjurnar og eru þær skaðlegar. Með skilningi á tengslamynstrum er hægt að bæta samskipti og dýpka sambönd við ástvini. Ástrík og góð tengsl eru forvörn í sjálfum sér.

Tökum sem dæmi barn með skólaforðun. Út frá hugmyndafræði fjölskyldufræðinnar er heillavænlegast að skoða umhverfi barnsins til að skilja hvað orsakar og viðheldur vandanum. Það hefur til dæmis ekkert gildi að segja að barn sé með kvíða, ef við skoðum ekki hvað felst í því og hvað viðheldur kvíðanum. Lyf geta verið mjög gagnleg og stundum lífsnauðsynleg, en ein og sér eru þau bara plástur.

Í fjölskyldumeðferð er skoðað hvernig foreldrum gengur að hjálpa barni sínu að vinna með kvíðann. Er barnið kvíðið vegna álags á foreldrana, og hvað um systkinin? Hvernig er sambandið þeirra á milli? Þetta er fyrirbyggjandi hugsun þar sem merkimiðar eru ekki aðalatriði.

Allir sem tilheyra fjölskyldunni geta átt erindi í fjölskyldumeðferðina. Fjölskyldufræðingurinn vinnur alltaf út frá þeirri forsendu að fjölskyldukerfin sem viðkomandi kemur úr, séu í lykilhlutverki. Lögð er áhersla á að skapa jafnvægi og bæta samskipti út frá kerfis- og tengslakenningum sem leggja grunn að fjölskyldufræði.

Fjölskylduráðgjafar vinna á stofum og víðsvegar í kerfinu. Þekktasta formið er hjóna- og pararáðgjöf. Stundum koma börnin með. Fullorðin systkini koma til að skoða samskiptavanda eða dýpka samskipti við foreldra sína, stjúpforeldri eða stjúpbörn. En alltaf er tilgangurinn að skapa jafnvægi, bæta samskipti og auka skilning milli fólks.

Einstaklingar hafa stundum leitað sér hjálpar árum saman, án breytinga til batnaðar og vanlíðan og samskiptavandinn verður viðvarandi. Það er svo ekki fyrr en vandamálin eru skoðuð í stærra samhengi sem hlutirnir fara að horfa til betri vegar. Fjölskyldufræðingur skoðar oft fjölskyldutré með fólki og reynir að finna mynstur og sögu sem kann að hafa áhrif enn í dag. Það er oft algjörlega nýtt sjónarhorn að sjá sig sem hluta af stærri mynd og setur vandamál líðandi stundar oft á tíðum í allt annað samhengi.

Fjölskyldumeðferð getur hjálpað fólki að tala er um erfiðar tilfinningar. Það er mikilvægt að tala um áföll, Þau eru eðlilegur hluti af lífinu. Það sem er ekki eðlilegt er að líta á viðbrögð við þeim sem eitthvað óeðlilegt sem þarf að laga eða flýja. Foreldrar geta hjálpað börnum sínum með því að fara með þeim í fjölskyldumeðferð og lært að ræða saman á uppbyggilegan hátt. Með auknu aðgengi að fjölbreyttri þjónustu bætum við velferð fjölskyldna. Það er ljóst að það þarf að breyta áherslum þegar kemur að andlegri heilsu og fjölskyldumeðferð gæti verið mikilvægur liður í því. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál