Kenndi sjálfri sér um dauða kærastans

Thelma Hulda Símonardóttir er gestur í hlaðvarpsþættinum Sterk saman.
Thelma Hulda Símonardóttir er gestur í hlaðvarpsþættinum Sterk saman.

Thelma Hulda Símonardóttir sem er þrítug, tveggja barna móðir úr Reykjavík segir frá því hvernig það hafi verið þegar fyrrverandi maður hennar fyrirfór sér. Hún segist hafa kennt sjálfri sér um andlátið en er í dag á góðum stað. Thelma ræðir um lífsreynsluna við Tinnu Barkardóttur í hlaðvarpsþættinum Sterk saman.

Thelma ólst upp í Árbænum og fékk gott uppeldi. Henni var kennt að hún þyrfti að vinna sjálf fyrir hlutunum. 

„Við systkinin erum alin þannig upp að við þurftum að hafa fyrir hlutunum. Okkur var kennt að vinna og hvernig lífið virkar, sem ég held að hafi hjálpað mér í lífinu,“ segir Thelma.

Hún segist hafa týnst svolítið þegar hún var komin í unglingadeild og upplifað einelti.

„Ég mundi alltaf að mamma sagði að þeir sem leggja í einelti líður sjálfum illa. Þegar ég fékk nóg lét ég samt í mér heyra,“ segir hún en eftir grunnskólann lá leiðin í Versló. Þegar hún var tvítug kom fyrrverandi maðurinn hennar inn í líf hennar. 

Hittust á skemmtistað

„Ég var svo tvítug á djamminu þegar hann kom inn á skemmtistað þar sem ég sat með vinkonum mínum og hann hefur líklega kannast við mig úr grunnskóla. Hann kom með drykk handa mér en ég fór eftir því sem mamma sagði og drakk ekkert sem ég sá ekki þegar barþjónninn blandaði, ekki ætlaði ég að láta byrla mér einhverju,“ segir Thelma. 

„Nokkrum mánuðum seinna fór hann að senda mér skilaboð en hann bjó í Noregi. Hann kom heim og við fórum að vera saman.“

Áfall að missa kærastann

Líf hans var ekki dans á rósum og þegar hann var 26 ára fyrirfór hann sér. 

„Hann sýndi mér fullt af merkjum sem ég áttaði mig ekkert á, eðlilega. Þetta er það síðasta sem manni dettur í hug,“ segir hún og lýsir því hvernig síðasta vikan í lífi hans hafi verið.

„Ég kenndi mér lengi vel um dauða hans fyrir að hafa ekki séð þessi merki og að ég hafi ekki verið nógu góð við hann fyrst hann valdi að fara frá mér og dóttur okkar sem var þá 11 mánaða gömul,“ segir hún. 

Thelma segir frá því að hann hafi verið nýbúinn að kaupa sér tölvu þegar hann lést. Kvöldið áður en hann fyrirfór sér kenndi hann Thelmu að komast inn í tölvuna ef hún þyrfti á einhverjum tímapunkti á því að halda. Hún skutlaði honum í skólann daginn örlagaríka og Thelma lýsir því hvernig hann hafi faðmað hana sérlega mikið. Hún lýsir fyrstu mánuðunum eftir andlát hans sem hreinu helvíti. Hún segist ekki hafa gefið neitt eftir og haldið áfram í vinnu og námi þrátt fyrir breyttar aðstæður. 

Nýi maðurinn reyndist vel

Átta mánuðum eftir andlát kærastans kynntist Thelma öðrum manni. 

„Sumum fannst þetta of snemmt og ég var hrædd um hvað fólki fannst en ég var búin að vinna rosalega vel í þessu áfalli. Þetta er verkefni sem mun fylgja mér allt mitt líf. Fyrst um sinn leið mér eins og ég væri að halda framhjá, við vorum aldrei hætt saman,“ segir hún. 

Thelma er full þakklætis því hún segir að nýi maðurinn hafi tekið dóttur hennar eins og sinni eigin. Í dag eiga þau son en hann er skírður í höfuðið á fyrrverandi manninum hennar. Auk þess bað hún fyrrverandi tengdamóður sína að vera guðmóður sonarins. 

„Stelpan mín fer alltaf aðra hverja helgi til ömmu sinnar og afa og eru mikil og góð samskipti sem er mjög dýrmætt fyrir okkur öll,“ segir hún og segir að það sé mikilvægt að fólk geti átt gott líf þrátt fyrir áföll eins og hún sjálf lenti í. 

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál