„Ég var alkóhólisti frá fyrsta sopa og fannst þetta geðveikt“

Aron Mímir Gylfason, annar helmingur Götustráka, er gestur Tinnu Barkardóttur í hlaðvarpinu Sterk saman. Hann ólst upp í Breiðholti og í Grafarvogi og segir að það hafi allt verið með kyrrum kjörum þegar hann var að alast upp. 

„Ég átti fína æsku og foreldrar mínir gerðu sitt besta.“

Aron segir frá því að hann hafi verið mjög feiminn og lent í einelti í grunnskóla. Hann segist ekki hafa passað ekki inn í boxið sem skólinn vill setja alla í.

„Ég dró mig í hlé og týndist, var bara í tölvunni. Í unglingadeild hætti ég svo að mæta og mamma var mjög meðvirk með mér,“ segir Aron.

Fyrsti sopinn 15 ára!

Aron drakk í fyrsta skipti þegar hann var 15 ára og segir að himnarnir hafi opnast.

„Ég var alkóhólisti frá fyrsta sopa og fannst þetta geðveikt. Allt í einu gat ég talað við fólk, svarað fyrir mig og einhvern veginn passaði ég í fötin mín,“ segir hann. 

Í framhaldsskóla kynntist hann hópi stráka sem voru farnir að fikta við ólögleg vímuefni en lengi vel var áfengi hans efni, hitt kom seinna. 

„Ég er í grunninn alkóhólisti og hef verið að flýja vanlíðan síðan ég var lítill. Fyrst í tölvuna, svo áfengið og síðan bættust ólöglegu vímuefnin við,“ segir hann. 

Aron segist hafa verið í framhaldsskóla fyrir bjórkvöldin og böllin, skólinn sjálfur skipti engu máli.

„Ég var fljótlega farinn að mæta á bjórkvöldin á fimmtudögum, kom mesta lagi heim í sturtu en annars var bara partí fram á sunnudagskvöld. Ég tók yfirleitt fjóra til fimm daga í einu.“

Mjög ungur var Aron líka farinn að nota stera og segir að þar hafi hann fengið að kynnast þunglyndi og vanlíðan. 

Barninu var ekki hugað líf

Á einum tímapunkti ákvað hann að taka sig saman í andlitinu og stoppa neysluna. Hann kynntist stelpu og lífið gekk ágætlega.

„Hún var orðin ólétt og við fórum í 20 vikna sónar, allt var í lagi en tveimur til þremur vikum seinna fórum við aftur og þá kom í ljós að barnið var með klofinn hrygg og vatnshöfuð, hefði aldrei getað átt gott líf svo það þurfti að framkalla fæðingu og barnið okkar fæddist andvana. Ég hef aldrei talað um þetta en ég er búinn að vinna í þessu í EMDR og get það núna,“ segir hann. 

Eftir þetta mikla áfall flúði Aron í mikla neyslu og kynntist kókaíni og róandi lyfjum.

Næstu ár voru honum og fjölskyldu hans afar erfið en hann rifjar upp síðasta neyslutúrinn sem var ferð til Tenerife en þar fór allt sparifé í neyslu, sem hann hafði safnað í þau tvö og hálft ár sem hann hafði verið edrú áður.

„Ég var búinn að vera edrú en líka að detta í það inn á milli og vera óheiðarlegur. Við vinirnir fórum til Tene og ég var dottinn í það fjórum tímum eftir lendingu. Var viss um að 0% bjór myndi duga mér en auðvitað er það bara hraðleið í bjór.“

Núna hefur Aron verið edrú og í bata í rúm tvö ár. Það sem hann gerir öðruvísi í þetta skiptið er að hann ákvað að leggja sínar hugmyndir til hliðar, taka tilsögn, gefa þessu tækifæri og þá gæti hann að minnsta kosti sagt að hann hefði reynt, ef þetta væri glatað. Nú orðið líður honum vel, er sáttur í eigin skinni og hefur áhuga á fólki, sem er andstæðan við það sem hann hélt að hann væri.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál