40 ára faðir skammast sín fyrir að hafa lent á geðdeild

Getty Images/Unsplash

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manni sem skammast sín fyrir andleg veikindi sín. 

Sæl Tinna Rut. 

Ég er 40 ára fjölskyldufaðir, giftur, 3 barna faðir. Ég á börn á aldrinum 9 – 16 ára. Ég hef verið að glíma við mikil andleg veikindi sem hafa leitt til þess að ég hef þurft að leggjast inn á geðdeild. Ég finn fyrir mikilli skömm varðandi veikindi mín og hef bannað konu minni að ræða veikindi mín við aðra og vill alls ekki að börnin mín viti af veikindum mínum. En ég finn þó að þau skynja ýmislegt en ég treysti mér ekki í að ræða þetta við þau, því ég er uppfullur af skömm.

Kær kveðja, 

JK 

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda.
Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda.

Sæll

Leitt að heyra að þú sért að glíma við svona mikla vanlíðan en glöð að heyra að þú sért að leita þér aðstoðar. Margir upplifa skömm vegna andlegra veikinda, sem er í sjálfu sér mjög sorglegt í mínum augum því andleg veikindi eru ekkert öðruvísi en líkamleg veikindi. 

Einstaklingum þykir oft erfiðara að ræða andlegu veikindi sín frekar en þau líkamlegu. Það getur verið gott að spyrja sjálfan sig af hverju mér finnst erfitt að ræða þetta. Hefur þú áhyggjur af því hvernig fólk bregst við, eða áhyggjur af minni stöðu, eða hvað er það sem hindrar mig í að ræða þetta? Þú værir alveg örugglega búin að segja þínum nánustu ættlingjum, vinum og börnunum þínum frá því ef þú værir t.d. að glíma við krabbamein.

En oft finnst fólki erfiðara að ræða ef það er að glíma við mikinn kvíða, verulegt þunglyndi, geðhvarfasýki eða annan geðrænan vanda. Að mínu mati er alltaf gott að upplýsa sína nánustu um það ef um einhverskonar veikindi eru um að ræða hjá okkur og þá sérstaklega ef þau eru farin að hafa áhrif á okkar daglega líf. Bæði vegna þess að flestir skynja oft mikið meira en við höldum, t.d. er ég alveg viss um að börnin þín hafi tekið eftir ýmsu og sitja kannski uppi með ótal spurningar í huganum sem væri gott fyrir þau að fá svör við. Það sama má segja um vini og ættingja.

Einnig held ég að það gæti verið gott fyrir þig að upplýsa þína nánustu um þín veikindi í þeirri von um að fá stuðning og skilning frá þeim í átt að bata. Það getur verið erfitt að burðast með sín veikindi einn á sínum herðum og ræða þau ekki við neinn, sérstaklega ef ástæðan er skömm. Ég get alveg lofað þér því að ástvinir þínir og vinir vilja veita þér stuðning í hvaða erfiðleikum sem steðja að hvort sem það eru andleg veikindi, líkamleg eða aðrir erfiðleikar og erfitt er að veita stuðning ef þau vita ekki hvað er að hrjá þig. Einnig getur verið gott að spyrja sig hvernig myndi ég svara besta vini mínum ef hann væri í sömu stöðu og ég? Myndir þú ráðleggja honum að þegja um sín veikindi og bera þau einn í hljóði? Ég held að við vitum bæði svarið við þessari spurningu. Mig langar að benda þér á vefinn Okkar heimur | en það er stuðningsúrræði fyrir börn sem eiga foreldra með geðrænan vanda. Þangað geta börnin leitað sjálf með spurningar sem þau vilja fá svör við og einnig þið foreldrar. Hvet þig til að skoða vefinn þeirra, margt áhugavert í boði sem gæti mögulega nýst ykkur fjölskyldunni. En mikilvægasta af öllu í umræðunni um veikindi þín við börnin þín og fjölskyldu er að vera einlægur og hreinskilinn.

Gangi þér sem allra best í átt að bata.

Bestu kveðjur,

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu spurningu HÉR.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál