Af hverju fattaði ég ekki fyrr að grjóthalda kjafti?

Maríanna Pálsdóttir snyrtifræðingur á Snyrtistofu Reykjavíkur.
Maríanna Pálsdóttir snyrtifræðingur á Snyrtistofu Reykjavíkur.

Maríanna Pálsdóttir snyrtifræðingur á Snyrtistofu Reykjavíkur prófaði að þegja í staðinn fyrir að segja alltaf sínar skoðanir í einu og öllu. Hún mælir með því að fólk prófi að hlusta og hugsa í stað þess að níða skóinn af náunganum. 

Það var kona í stólnum hjá mér sem kemur reglulega og ræðum við allt milli himins og jarðar. Förum á dýptina og ræðum þungu, stóru málin og bleiku fílana sem óumbeðið smjúga sér oft inn í líf okkar. Veltum gjarnan fyrir okkur mannlegri hegðun og speglum hvor aðra. Endurgjöfin sem ég fæ frá henni er ávalt beinskeytt og ætli það sé ekki það sem ég kann mest að meta í hennar fari. Það er ekkert verið að sykurhúða hlutina ef fólk prjónar yfir sig. Báðar höfum við lent í því að fá yfir okkur holskeflu af allskonar drullu og drasli fyrir það að segja umbúðalaust hvað okkur finnst.

Nú síðast fannst mér hún koma með alveg ótrúlega góðan punkt. Hún sagðist vilja óska að hún hefði fattað fyrr að grjót halda bara kjafti. Hún lýsti því sem hinu fullkomna frelsi, ákveðnum súperkrafti fylgdi því að hlusta, hugsa, þegja og bregðast ekki við. Ég hugsaði þetta og hló innra með mér. Ég velti fyrir mér hvernig í ósköpunum myndi mér nú eiginlega takast þetta.

Ég læt nú yfirleitt í mér heyra og segi mína skoðun og hefur þótt það ansi mikill kostur en svo þegar betur er að gáð þá er það ekkert alltaf svo. Ég hef margoft valdið usla með því að segja mína skoðun og sett fólki mörk. Þá spyr maður sig hvort það hafi verið þess virði að svara jafnvel þeim sem hefur ekki getu eða dómgreind til að skilja milli þess sem er rétt og rangt. 

En pælið aðeins í því ef fleira fólk myndi grjóthalda kjafti, ekki bara í lifandi lífi heldur  á samfélagsmiðlum líka. Oftar en ekki fallast mér einfaldlega hendur. Við þekkjum öll einhvern sem er óstjórnlega óheppilega ruglaður á netinu. Eins og miðaldra konan sem var með mynd af sér og manninum sínum í prófile-mynd og kom með spurningu í 30 þúsund manna hópi kvenna hvort konurnar væru að gleypa sæði manna sinna. Þessi kona hefði til dæmis átt að grjóthalda kjafti og sleppa því að spyrja. Eða amman sem taggaði litlu barnabörnin sín í dildó gjafaleik hjá Blush. Það var reyndar ógeðslega fyndið en mjög vandræðalegt. Já eða gamli maðurinn sem sagðist flytja frá Íslandi frekar en að hafa homma sem forseta. Best væri ef sá kall væri ekki með tölvu eða síma! Svo er það venjulega konan sem býr í næstu götu við mig sem fór að drulla yfir alla innflytjendur sem stíga fæti á Ísland, sagði þau öll ógeðsleg og að Bjarni Ben væri æðislegur og myndi ekki einn geta bjargað Íslandi! 

Stundum held ég að það sé eitthvað stórkostlega mikið að mannskepnunni. Sumir einfaldlega ráða bara ekki við það að hafa internettenginu nálægt sér. Ef þú ert einn, ein eða eitt af þeim sem ert að fara hamförum á Internetinu eða í lífinu sjálfu þá langar mig góðfúslega að segja eitt við þig áður en þú heldur lengra, grjót haltu frekar kjafti og einbeittu þér að því að hlusta, hugsa og svo að lokum bara þegja! Það fylgir því frelsi, ég er búin að prófa þessa nýju tækni nokkrum sinnum nú þegar þessi pistill er í vinnslu og hún svínvirkar! Ef þú færð þennan pistil sendan án frekari útskýringa þá held ég að það sé verið að senda þér skýr skilaboð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál