Kveið því að kyssast fyrir framan alla

Stefanía, Hrafnhildur og börnin þeirra fjögur.
Stefanía, Hrafnhildur og börnin þeirra fjögur. Ljósmynd / úr einkasafni

Saga Stefaníu Steinsdóttur og Hrafnhildar Eyþórsdóttur er óvenjuleg fyrir margra hluta sakir. Leiðir þeirra lágu saman í Háskóla Íslands þar sem Stefanía var í guðfræðinámi og Hrafnhildur í djáknanámi. Báðar voru þær fráskildar, hvor um sig með tvö börn frá fyrra hjónabandi og hvorug hafði nokkra hugmynd um eigin samkynhneigð.

„Fyrst héldum við að okkur langaði svona ofboðslega mikið að vera vinkonur, en urðum svo bara skotnar hvor í annarri,“ segir Stefanía.

Óþarfa áhyggjur

Hrafnhildur virtist eiga auðveldara með þessa óvæntu uppgötvun, en Stefanía átti lengur í innri baráttu með kynhneigð sína. „Fyrir Hrafnhildi virtist þetta lítið mál, en það var ég sem vildi halda sambandinu leyndu og óttaðist ég mest hver viðbrögð samfélagsins, vina og ættingja yrðu. Ég sagði mömmu og pabba fréttirnar í gegnum tölvupóst og óttaðist ég að þau myndu aldrei tala við mig aftur. En sá ótti var ekki á rökum reistur því fordómarnir voru eingöngu hjá sjálfri mér.“

Stefanía og Hrafnhildur trúlofuðust 17. september 2015 og gengu í hjónaband 27. ágúst tæplega ári seinna. Stefanía tók af skarið og segir að allt frá því að hún var lítið barn hafi henni þótt hjónabandið vera sér mjög mikilvægt. „Þetta var nú ekki sérstaklega rómantískt bónorð, enda er það Hrafnhildur sem sér um alla rómantíkina í sambandinu. Við vorum bara að ræða málin, og hvaða máli það skipti okkur að ganga í hjónband frammi fyrir Guði, og ég einfaldlega bað hana um að giftast mér og úr varð að trúlofast.“

Athöfnin fór fram í Akureyrarkirkju og var það Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur sem gaf parið saman. „Við höfðum búið úti í Noregi allt sumarið, komum heim tveimur vikum fyrir brúðkaupið og vorum hreinlega ekkert að stressa okkur of mikið yfir þessu enda áttum við góða að sem hjálpuðu okkur í öllum undirbúningi og í veislunni.“

Stefanía og Hrafnhildur héldu fyrst að þær vildu ólmar vera …
Stefanía og Hrafnhildur héldu fyrst að þær vildu ólmar vera vinkonur, en urðu síðan bálskotnar í hvor annarri. Ljósmynd / úr einkasafni

Óvæntur söngur

Veðrið var gott þennan dag en samt fremur kalt og var athöfnin fullkomin að sögn Stefaníu. Steingrímur Þórhallsson, organisti í Neskirkju og vinnufélagi Stefaníu, gerði sér ferð norður til að spila við athöfnina, og Þórhildur Örvarsdóttir söng. „Við klæddumst báðar bleiku, þó ekki alveg sama litnum, og leiddum hvor aðra inn kirkjugólfið en börnin okkar fjögur gengu inn á undan. Elsta dóttir mín, 15 ára, tók það upp hjá sjálfri sér að koma okkur á óvart og söng með vinkonu minni lag handa okkur í miðri athöfninni, og má segja að gerviaugnhárin hafi þolað illa táraflóðið því þetta var svo fallegt og okkur kært. Útspilið var síðan lagið „Top of the World“ eftir The Carpenters.“

Það kom í hlut bróður Stefaníu að velja brúðkaupsbílinn og beið veglegur húsbíll fyrir utan kirkjuna. Fóru brúðhjónin og gestirnir, um 130 talsins, að Melum í Hörgárdal skammt frá heimili foreldra Stefaníu. Þar hafði verið leigður salur og slegið til virðulegar sveitaveislu. „Allir voru voða fínir og var ólýsanleg tilfinning að hafa alla okkar nánustu samankomna til að samgleðjast með okkur. Hreindýraborgarar voru aðalrétturinn og var borgurunum skolað niður með kynstrunum öllum af fljótandi veigum. Var mikið fíflast og skrallað, sungin lög og myndir sýndar úr gæsaveislunum. Um miðnætti fóru börnin heim til mömmu og pabba en við Hrafnhildur dönsuðum með gestunum til að verða fimm um morguninn og dvöldum svo í sumarbústað sem foreldrar mínir höfðu leigt fyrir okkur, lengst inni í Hörgárdal.“

Hika við að leiðast

Þó að fordómarnir heyri hér um bil sögunni til upplifa samkynhneigðir oft nýjar og undarlegar tilfinningar þegar ást þeirra er borin á borð í athöfn eins og brúðkaupi. Stefanía þekkir það hjá sjálfri sér að hafa helst ekki viljað kyssa Hrafnhildi nema í laumi. „Ég kveið mest fyrir því að eiga að kyssa konuna mína fyrir framan allt þetta fólk í brúðkaupinu; kyssa konuna sem ég elska fyrir framan alla okkar nánustu var skrýtin tilfinning. Ég frétti það seinna að þetta hefði verið hálfgerður hraðkoss,“ segir Stefanía glettin. „Í hversdagslífinu eigum við Hrafnhildur það til að passa okkur á því að leiðast ekki né sýna það út á við að við séum ástfangnar, af ótta við viðbrögð annarra. Brúðkaupið gaf okkur því sérstaklega mikið þar sem við upplifðum viðurkenningu allra okkar nánustu á hjónabandi okkar. Það fyllti hjartað sérstaklega og losaði í það minnsta mig úr viðjum eigin fordóma og það er það sem stendur upp úr eftir þennan dag.“

Stefanía og Hrafnhildur á brúðkaupsdaginn.
Stefanía og Hrafnhildur á brúðkaupsdaginn. Ljósmynd / úr einkasafni
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál