„Vinur minn, þáverandi, nauðgaði mér“

Karen Eir Valsdóttir er ennþá að vinna út úr áfallinu …
Karen Eir Valsdóttir er ennþá að vinna út úr áfallinu sem hún varð fyrir.

Karen Eir Valsdóttir er nýjasti gestur hlaðvarpsins Sterk saman. Hún er 24 ára gömul og ættuð að norðan. Líf hennar umturnaðist 2018 þegar henni var nauðgað af þáverandi vini. Hún segist ennþá vera að vinna sig út úr áfallinu sem hún varð fyrir.

Karen ólst upp í náinni fjögurra manna fjölskyldu, rétt fyrir utan Akureyri og gekk í sveitaskóla. Fjölskyldan flutti inn á Akureyri árið 2015 og hélt Karen þá í Verkmenntaskólann.

„Ég vann mikið frá 13 ára aldri með skóla og var líka rosalega dugleg í skólanum og þótti gaman,“ segir Karen sem lærði sjúkraliðann og segir að það hafi átt vel við sig. 

Þann 30. september 2018 breyttist líf hennar  til frambúðar. 

„Vinur minn, þáverandi, nauðgaði mér og það tók mig smá tíma að átta mig á því að þetta gæti komið fyrir mig,“ segir hún. 

Karen leitaði á bráðamóttöku og var hún með mikla áverka á líkamanum.

„Vinkona mín fór með mig upp á bráðamóttöku og er það henni að þakka að ég hafi farið þangað. Þar fór ég í smá skoðun og var svo boðið að hitta lögreglu sem ég vildi alls ekki á þeim tímapunkti,“ segir hún og bætir við að hún hafi verið afar hrædd við viðbrögð samfélagsins sem og móttökur sem hún gæti fengið hjá lögreglunni. 

Óttaðist að segja frá 

Samfélagið hafði kennt tvítugri stelpu að ekki væri öruggt að segja frá hrottalegri nauðgun án þess að verða fyrir áreiti á netinu, í samfélaginu almennt eða það sem verra er, að henni yrði ekki trúað. 

Karen fór, ásamt föður sínum, nokkru síðar til lögreglunnar til þess eins að fá upplýsingar um ferli sem færi í gang ef hún myndi kæra nauðgun og hvernig kerfið myndi bregðast við.

„Ég vildi í rauninni líka vita hvernig mér yrði tekið. Sá sem tók á móti mér var mjög næs en ég þurfti tíma til að taka ákvörðun fyrir sjálfa mig, fyrir mig. Ég er þakklát fyrir að enginn í mínu nánasta umhverfi pressaði á mig.“

Sex mánuðum eftir að Karen lenti í nauðguninni ákvað hún að leggja fram kæru að vel ígrunduðu máli.

„Ég vildi gera þetta fyrir allar konur, mér fannst auðveldara að segja sjálfri mér að ég væri að berjast fyrir allar konur en ekki bara mig.“

Það var erfið ákvörðun að kæra gerandann en á sama tíma vildi Karen ekki að hann kæmist upp með að brjóta svo hrottalega á henni og taka frá henni allt frelsi og gera hana svo varnarlausa.

Eftir að hafa kært verknaðinn fór andlegt og líkamlegt ástand Karenar niður á við. Hún þróaði með sér mikla og flókna áfallastreitu sem braust út sem sjálfsofnæmi. Streitan varð svo mikil að líkaminn varð allur í útbrotum, hún þjáðist af ofsakláða og í nokkur skipti lokaðist öndunarvegur hennar. Karen gat ekki unnið eða stundað nám eins og hún hafði gert svo vel fyrir áfallið. Hún segir frá því hvernig hún stóð með sjálfri sér í gegnum allt ferlið, sem tók mikið á og óralangan tíma.

Ofbeldismaður Karenar var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir brotið en mun losna fljótlega og kemur þá aftur á Akureyri.

„Ég reyni að hugsa sem minnst um það, ég veit bara að ég er sterkari en hann. Ef ég velti mér of mikið upp úr þessu aftur mun sjálfsofnæmið blossa upp aftur, ég þoli svo lítið álag ennþá,“ segir hún. 

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál