„Finnst svo ógeðslegt í þessu öllu, er að þetta snýst allt um peninga“

Gréta Salóme
Gréta Salóme mbl.is/Styrmir Kári

Söngkonan Greta Salóme Stefánsdóttir hefur sterkar skoðanir á Eurovision í ár og segir að hún hefði ekki farið út á Eurovision ef hún hefði sigrað, hún hefði afhent keflið áfram. Greta Salóme er nýjasti gesturinn í hlaðvarpsþættinum Klefinn með Silju Úlfars. Í þættinum ræða þær markmiðasetningu, fullkomnunaráráttu, fiðluna ferilinn og Disney. 

Þegar hún er spurð um Eurovision í ár þá segir Greta að það sé margt hægt að segja um keppnina. 

„Mér finnst þetta fyrst og fremst dapurlegt. Ég á þessari keppni svo margt að þakka en ég finn ekki gleðina í kringum hana í ár, og þessa gleði sem er mikið talað um af íslenska keppandanum. Að megi ekki gleymast og þurfi að ríkja, ég sé hana ekki í ár. Ég sé hana ekki hjá fólki sem elskar Eurovision, ég sé hana ekki hjá almenning, maður sér hana ekki hjá fólkinu hjá Rúv meira að segja. Það skín bara í gegn að það er ekki stemmning fyrir þessu og það er einföld ástæða fyrir því, það eru mannréttindabrot, það er hræðilegt að segja það, en það er verið að slátra litlum börnum og í því samhengi, við getum ekki farið, mín skoðun er reyndar sú að við eigum ekki að fara í karókí partí eins og Eurovision með Ísraelum eða boltaleiki með þeim. Ég sé ekki gleðina í þessu, ég sé ekki tilganginn í þessu,“ segir Greta. 

Þegar Greta er spurð hvort hún myndi stíga á svið ef hún hefði unnið þá neitar hún því. 

„Ég hefði ekki gert það og ég get sagt það með 100% sannfæringu,“ segir hún og bætir við: 

„Ég hefði rétt keflið eitthvað annað, lagahöfundur vill ekki einu sinni fylgja laginu eftir.“

Greta segir að Eurovision snúist um pólitík. 

„Eurovision er pólitísk keppni og það er EBU (The European Broadcasting Union) að þakka eða kenna því þeir taka ákvörðun og henda Rússlandi út og öðrum þjóðum út ef textinn er of pólitískur og taka ákvörðun í hvert skipti. Ef Rússland fær ekki að taka þátt, ég bara get ekki skilið þegar Mannréttindadómstóll Evrópu er búinn að fordæma það sem er í gangi, að Ísraelar geta marserað þarna inn með hápólitískt lag. Hversu ópólitískt er það að Palestínski fáninn sé bannaður,“ segir hún. 

Peningar ráða för

Greta ræðir um aflið á bak við keppnina. 

„Það sem mér finnst svo ógeðslegt í þessu öllu, er að þetta snýst allt um peninga. Aðal styrktaraðili Eurovision er Maroccanoil sem er Ísraelskt fyrirtæki, ef þeir henda Ísrael út þá er ekki stærsti styrktaraðilinn farinn. Þegar maður setur þetta í samhengi við líf saklausra barna, ég bara get ekki skilið þetta og ég get ekki samþykkt þetta og ég get ekki stutt þetta, sama hvað mér þykir vænt um keppnina og keppandann líka,“ segir hún. 

„Þetta er flókin staða, ég hef fulla samúð með Heru. Ég held að þetta sé ekki auðveld staða til að vera í. Þó ég hefði tekið aðra ákvörðun sjálf, þá get ég skilið að það komast ekki allir að sömu niðurstöðu,“ segir Greta. 

Þegar hún er spurð hvort hún hafi rætt þetta við Heru þá svarar hún því játandi.

„Ég elska Heru, og eins og hún hefur sagt sjálf ef einhver sem getur staðið þennan storm af sér með bak og bein þá það er ein þá er það hún, hún er grjóthörð og fylgir sinni sannfæringu. Svo er það oft þannig að maður er ekki alltaf sammála vinum sínum og kollegum.“

„Ég er rosalega þakklát að vera ekki viðstödd út í Malmö núna,“ segir Greta jafnframt. 

Greta Salome keppti fyrir Íslands hönd í Eurovision 2016.
Greta Salome keppti fyrir Íslands hönd í Eurovision 2016. AFP

Allt þurfti að vera fullkomið

Talið berst að fullkomnunaráráttu sem hún þjáðist af þegar hún var lítil. 

„Fullkomnunaráráttan kemur frá klassíska bakgrunninum, það er svoldið harkan sex. Í klassíkinni þá æfir maður til dæmis hálftíma verk og þú spilar 10.000 nótur, en þú spilar eina vitlausa en þú spilar hinar allar fullkomlega. Þegar ég segi vitlausa þá getur vel verið að enginn hafi tekið eftir því. En í klassíkinni þá labbarðu út af sviðinu með þessa einu nótu í hausnum og ferð að sofa með þessa einu nótu í hausnum og vaknar með hana í hausnum. Þetta er mjög harður heimur og kallar á fullkomnun að mörgu leyti,“ segir hún. 

Greta hefur unnið fyrir Walt Disney síðustu tíu ár og segir að það hafi verið erfitt að fá starfið. Eftir Eurovision 2012 vildi hún breyta til og hugur hennar leitaði út, til Bandaríkjanna. Hún segist hafa viljað ná frama í útlöndum og stækka sjálfa sig sem vörumerki.

„Ég byrjaði að vinna fyrir sjálfa mig. Ég ákvað að ég myndi setja saman promo pakka, það sem ég hafði gert. Ég sendi svo promo pakkann út um allt,“ segir hún.

Stóð með sjálfri sér

2014 kom svo tækifærið þegar Disney sýndi henni áhuga. Hún flaug til Flórída til að fara í prufur og var með bara með sig og sjálfa sig að vopni.

„Ég fer út full eftirvæntingar með fiðluna mína og öll „playbackin“ mín, svo mæti ég þarna til Flórída og það vissi enginn hvað átti að gera við mig. Þetta voru svo mikil vonbrigði og „anticlimax“, en ég gat ekki farið heim því það vissu allir að ég fór út að vinna hjá Disney,“ segir hún. 

„Ég hef ekki talað mikið um þetta því svo fór þetta öðruvísi,“ segir hún og útskýrir hvernig henni tókst að snúa vörn í sókn. Eða frá því að spila fyrir fólk sem var að borða franskar yfir í að spila í stóra leikhúsinu sem rúmer 2.000 manns. 

Hægt er að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan. mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál