Atli Viðar: Get alveg séð fyrir mér að við hömpum titlinum

Atli Viðar Björnsson hefur reynst FH-ingum dýrmætur í undanförmum leikjum. …
Atli Viðar Björnsson hefur reynst FH-ingum dýrmætur í undanförmum leikjum. Hér er hann í baráttu við Reyni Leósson, Fram. mbl.is/hag

Atli Viðar Björnsson, framherji FH-inga, hefur svo sannarlega reynst Hafnarfjarðarliðinu dýrmætur í síðustu leikjum en Dalvíkingurinn knái skoraði tvö mörk gegn Breiðabliki í kvöld eins og gegn Keflavík á sunnudaginn þegar hann tryggði sínum mönnum sigurinn á ögurstundu.

,,Það var ekkert í boð hjá okkur en að taka þrjú stig og halda okkur á lífi í titilbaráttunni. Það var rosalega gott að ná marki á þá svona snemma og það auðveldaði okkur mjög að innbyrða stigin þrjú því við vissum að þeir hefðu að litlu að keppa og yrðu fljótir að brotna,“ sagði Atli Viðar, við mbl.is eftir leikinn en Atli kom FH á bragðið þegar hann skoraði eftir aðeins 7 mínútna leik.

„Staðan fyrir lokumferðina er einfaldlega sú að við verðum að vinna og stóla á að Keflavík misstígi sig. Ég get alveg séð það fyrir mér að við hömpum titilinum. Framararnir hafa sýnt það í sumar að þeir eru með flott lið. Þeir fóru illa með okkur um daginn og ég fulla trú á að þeir geti staðið vel í Keflvíkingunum,“ sagði Atli Viðar sem hefur nú skorað 11 mörk í Landsbankadeildinni.

,,Það hefur gengið vel í síðustu leikjum og ég samdi við ágætan mann fyrir mótið að ég myndi ná tveggja stafa tölu og nú hef ég náð því sem ég er ánægður með og hann er það örugglega líka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert