Lagerbäck: Alltaf möguleikar

Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson aðstoðarþjálfari.
Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson aðstoðarþjálfari. mbl.is/Kristinn

„Öll liðin hefðu orðið okkur erfið en ég hef ekkert á móti því að mæta Króötum sem eru áhugavert lið og ég þekki nokkuð til þess síðan ég þjálfaði sænska landsliðið,“ sagði Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, við fréttamenn í Zürich að loknum drættinum fyrir umspil HM þar sem Ísland dróst gegn Króatíu.

„Við erum vissulega litla liðið á pappírunum en okkur hefur tekist að koma sumum á óvart til þessa í keppninni og vonandi getum við haldið því áfram. Í tveimur leikjum eru alltaf möguleikar fyrir hendi. Það eru hæfileikaríkir leikmenn í íslenska liðinu og ég er bjartsýnn en auðvitað verður þetta mjög erfitt,“  sagði Lagerbäck.

Spurður um kosti þess eða galla að spila fyrri leikinn á Laugardalsvelli 15. nóvember svaraði Lagerbäck: „Það getur komið okkur  til góða, sérstaklega ef okkur tekst að halda hreinu í fyrri leiknum. Þá getur eitt mark á útivelli orðið mjög dýrmætt. En það er erfitt að segja til um þetta fyrirfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert