Gummi Ben.: Svona er Árni bestur

Árni Vilhjálmsson skoraði þrennu í dag.
Árni Vilhjálmsson skoraði þrennu í dag. mbl.is/Eva Björk

Guðmundur Benediktsson, þjálfari Breiðabliks, var alsæll með lið sitt eftir öruggan 4:1 sigur á Víkingum í dag. Blikar léku á als oddi og sóttu nær látlaust á gestina.

„Ég er gríðarlega ánægður með allt liðið, frá upphafi til enda,“ sagði Guðmundur í samtali við mbl.is skömmu eftir leikslok. „Við vorum gríðarlega öflugir og byrjuðum leikinn af krafti. Við kláruðum leikinn þannig séð í fyrri hálfleik,“ og bætti við að hann hefði þó viljað sjá sína menn skora fleiri mörk í fyrri hálfleik.

Manni færri minnkaði Víkingur muninn í 2:1 þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka. „Mér fannst það óþarfi að setja einhverja smáspennu í þetta. Við stigum aðeins á bensíngjöfina eftir markið sem við fengum á okkur og kláruðum þetta með stæl.“

Árni Vilhjálmsson, framherji Breiðabliks, fór á kostum í leiknum og skoraði fyrstu þrjú mörk heimamanna. „Við vitum hvað Árni getur og svona er hann bestur – í vítateig andstæðinganna,“ sagði Guðmundur.

„Þegar einbeitingin er í lagi þá standast fáir honum snúning.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka