Breiðablik lagði FH

Arnór Sveinn Aðalsteinsson skoraði tvö í dag.
Arnór Sveinn Aðalsteinsson skoraði tvö í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Breiðablik vann FH, 2:1, í fótbolti.net-mótinu í knattspyrnu í Fífunni í dag og Keflavík og Grindavík gerðu jafntefli, 1:1, í Reykjaneshöllinni. Í Akraneshöllinni vann ÍA sigur á Þrótti R., 3:1.

Blikar skorðu fyrsta mark leiksins þegar Arnór Sveinn Aðalsteinsson skoraði úr vítaspyrnu á lokamínútu fyrri hálfleiks. Pétur Viðarsson leikmaður FH fékk þá rauða spjaldið, en dæmd var vítaspyrna á hann þegar boltinn fór í höndina á honum. Hann var ekki sáttur og mótmætli fullkröftuglega að mati dómarans sem sýndi honum þá annað gult spjald.

Belginn Jérémy Serwy, sem er til reynslu hjá FH, jafnaði með marki á 61. mínútu. Arnór Sveinn var síðan aftur á ferðinni á 82. mínútu með sigurmarkið.

Erlendu leikmennirnir þrír sem eru hjá FH þessa dagana voru allir í byrjunarliði Hafnfirðinganna, sem og Hlynur Atli Magnússon, varnarmaður úr Þór á Akureyri.

Hörður Sveinsson kom Keflavík yfir í leiknum við Grindavík með marki á 14. mínútu en Magnús Björgvinsson jafnaði á síðustu mínútu fyrri hálfleiks og við það sat. Maciej Majewski, Pólverji sem hefur varið mark Sindra á Hornafirði undanfarin ár, lék með Grindavík og varði vítaspyrnu frá Bojani Stefáni Ljubicic. Rodrigo Gomes, spænskur varnarmaður sem lék með Sindra í fyrra, var einnig í liði Grindvíkinga.

Albert Hafsteinsson, Arnar Már Guðjónsson og Garðar B. Gunnlaugsson skoruðu fyrir Skagamenn eftir að Þróttarar höfðu gert fyrsta markið á Akranesi. Viktor Jónsson skoraði mark Þróttar.

Markaskorarar eru fengnir frá fotbolti.net og af leikskýrslum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert