Jafnt í toppslagnum

Jón Ragnar Jónsson og Guðjón Pétur Lýðsson í umdeildu atviki …
Jón Ragnar Jónsson og Guðjón Pétur Lýðsson í umdeildu atviki í fyrri hálfleik þar sem Blikar vildu fá vítaspyrnu. mbl.is/Eva Björk

Kassim Doumbia tryggði FH stig gegn Breiðablik í toppslag Pepsi deildarinnar í kvöld með nánast síðustu snertingu leiksins. Doumbia jafnaði með skalla þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. 

Arnþór Ari Atlason kom gestunum yfir með fallegu marki og Blikar virtust ætla að ná að hanga á stigunum þremur. Þegar 90 mínútur voru komnar á klukkuna fóru hinsvegar hlutirnir að gerast. Bjarni Þór Viðarsson fékk rautt spjald fyrir fólskubrot á Oliver. 

En FH vélin hélt áfram að malla og heimamönnum fannst eins og rauða spjaldið hefði verið rangur dómur. Þeir efldust við mótlætið og hófu stórsókn. Davíð Þór átti skalla sem Gunnleifur varði meistaralega í horn og upp úr horninu skoraði Doumbia. 1:1 í ótrúlegum leik. 

Fyrri hálfleikur byrjaði fjörlega en lítið gekk að brjóta á bak aftur varnir andstæðinganna. Davíð Þór og Oliver vernduðu sína hafsenta vel og því var gengið til hálfleiks í stöðunni 0:0. Upphaf síðari hálfleiksins var svo slakur að manni setti hljóðan á köflum. Mistök og lélegar sendingar sem minntu mann á fyrstu deild en ekki toppslag Pepsi deildarinnar.

Markið sem Arnþór Ari skoraði kom eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Skyndilega var hann sloppinn í gegn og vippaði laglega yfir Róbert í marki FH. Eftir það virtust öll sund lokuð fyrir heimamenn sem fóru í þann skrýtna fótbolta að negla fram og vona það besta. 

Blikar í stúkunni voru farnir að fagna, syngjandi sigursöngva. Það syrti svo enn í álinn fyrir heimamenn þegar Bjarni var rekinn af velli. Persónulega fannst mér þetta mikið ruddabrot og verðskuldaði rautt spjald. En það var maldað í móinn og maður skynjaði að FH ætlaði sér að jafna, jafnvel þótt tíminn væri naumur. 

Þegar 90 mínútur voru komnar á klukkuna og einhverjar sekúndur yfir fengu heimamenn aukaspyrnu sem Atli Guðna tók. Boltinn fór á kollinn á Davíð Þór en Gunnleifur varði meistaralega. Stúkan stóð öll upp og hvatti sína menn til dáða, hvort sem þeir voru grænir eða hvítir. 

Böðvar tók hornið, þar reis Doumbia upp eins alvöru bjargvættur og hamraði boltann í netið. Stórglæsilegt mark. 

Trúlega er jafntefli sanngjarnt á heildina litið en Blikar sofna væntanlega seint í kvöld enda fannst þeim þeir vera rændir. Það verður hinsvegar auðveldara að sofna fyrir FH-inga enda eru þeir væntanlega sáttir að hafa fengið stig - úr því sem komið var.

FH 1:1 Breiðablik opna loka
90. mín. Davíð Þór Viðarsson (FH) á skalla sem er varinn +2
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert