Stökkmúsin stefnir á skallamark

Óskar Örn Hauksson vonast til að fagna í kvöld.
Óskar Örn Hauksson vonast til að fagna í kvöld. mbl.is/Eggert

Óskar Örn Hauksson, leikmaður KR í knattspyrnu karla, hlakkar til að mæta Breiðabliki í Frostaskjólinu í kvöld. Leikurinn er í 13. umferð Pepsi-deildar karla en með sigri ná KR-ingar fimm stiga forystu á toppnum. Breiðablik þarf nauðsynlega á stigunum að halda í kvöld, ætli þeir sér að halda í við Vesturbæjarliðið í toppbaráttunni.

„Mér líst vel á leikinn í kvöld. Það er gott veður þannig að þetta lítur vel út,“ segir Óskar í samtali við mbl.is. „Það er nú bara þannig að ef við mætum klárir og spilum okkar leik þá er þetta yfirleitt í okkar höndum,“ sagði Óskar þegar blaðamaður spurði hvort þeir ætluðu að leggja áherslu á að stoppa eitthvað sérstakt í leik Breiðabliks.

Hann segir að KR-ingar séu búnir að hrista af sér vonbrigði fimmtudagsins. Þá töpuðu þeir 3:0 gegn Rosenborg í Noregi í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar. „Við vorum bara rotaðir í byrjun. Eins og Hemmi Hreiðarss. sagði í einhverju viðtali að ef þú ert kýldur tvisvar þá verðurðu valtur á fótunum, þannig var það. Við getum ekki gert kröfu á að vinna Rosenborg úti en við ætluðum klárlega að gefa þeim meiri leik en við gerðum.“

Óskar segir leikjaálag undanfarinna vikna ekki sitja í leikmönnum. „Við erum í góðum gír. Við hvílum okkur vel á milli og erum með góðan sjúkraþjálfara og nuddara og annað þannig að við erum í toppgír. Við erum í þessu til að spila fótbolta þannig að þetta er bara gaman. Enda eru flestir klárir í þetta í kvöld.“

Óskar hefur verið nokkuð duglegur við markaskorun í sumar, sett fimm mörk í deildinni. Athygli hefur vakið hversu mikinn stökkkraft hann hefur og leikur blaðamanni forvitni á að vita hvort stefnan sé ekki sett á að skora með höfðinu í kvöld. „Jú, auðvitað það er markmiðið í hverjum leik. Ég hef heyrt mikið talað um þetta undanfarið. En auðvitað er alltaf gaman að skora,“ segir Óskar Örn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert