Leikið á Íslandi á meðan EM fer fram

Gunnleifur Gunnleifsson mun að öllum líkindum missa af leik ÍBV ...
Gunnleifur Gunnleifsson mun að öllum líkindum missa af leik ÍBV og Breiðabliks, sem og fleiri leikjum í deildinni í sumar. mbl.is/Eva Björk

Þrír leikir fara fram í Pepsi-deild karla á meðan riðlakeppni EM í Frakklandi fer fram í sumar en Birkir Sveinsson, mótastjóri KSÍ, staðfesti þetta við Fótbolta.net í dag.

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu leikur á Evrópumótinu í Frakklandi í sumar en Ísland hefur keppni 14. júní og þá lýkur riðlakeppninni þann 22. júní hjá íslenska liðinu.

Ljóst er að þrír leikir fara fram í Pepsi-deild karla á meðan riðlakeppnin er í gangi en leikina má sjá hér fyrir neðan.

Margir kölluðu eftir því að hlé yrði gert á deildinni á meðan öll riðlakeppnin færi fram en ljóst er að það er ekki hægt. KSÍ tókst þó að færa flesta leiki til og fara því einungis þrír leikir fram á meðan riðlakeppnin er í gangi.

Þá fara ekki fram leikir í Pepsi-deild kvenna né 1. deild karla á þessum dagsetningum og því ljóst að þessir þrír leikir eru þeir einu sem fara fram í keppni í meistaraflokki á meðan riðlakeppni EM fer fram.

Leikirnir:

15. júní: ÍBV - Breiðablik (Hásteinsvöllur)
15. júní: Fjölnir - KR (Fjölnisvöllur)
16. júní: Valur - FH (Valsvöllur)

mbl.is