Dramatík er ÍA lagði meistarana - Atli hetja Blika

Skagamenn lögðu Íslandsmeistara FH.
Skagamenn lögðu Íslandsmeistara FH. mbl.is/Eva Björk

Tveir leikir fóru fram í A-deild fotbolta.net æfingamótsins í knattspyrnu í dag. Skagamenn komu þá til baka gegn Íslandsmeisturum FH og uppskáru sigur í blálokin í Akraneshöllinni á meðan Blikar unnu í Fífunni.

Steven Lennon kom FH yfir strax á þriðju mínútu leiksins þegar hann vippaði boltanum yfir Árna Snæ Ólafsson í markinu. Þannig var staðan allt þar til tíu mínútur voru til leiksloka þegar Arnór Snær Guðmundsson jafnaði metin með skalla eftir aukaspyrnu Jóns Vilhelms Ákasonar, en skömmu áður hafði Gunnar Nielsen bjargað meistaralega í marki FH.

Allt virtist stefna í jafntefli en á lokamínútunni skoraði Steinar Þorsteinsson fyrir ÍA eftir undirbúning Arnars Más Guðjónssonar og tryggði Skagamönnum sigur, 2:1. ÍA hefur þar með unnið báða leiki sína til þessa á mótinu eftir að hafa unnið Þrótt, en FH tapaði einnig gegn KR á dögunum.

Í hinum riðlinum mættust Breiðablik og Víkingur Ólafsvík í Fífunni. Þar var aðeins eitt mark skorað, en Atli Sigurjónsson tryggði Blikum 1:0 sigur með marki úr vítaspyrnu þegar fjórar mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.

Þetta var fyrsti sigur Blika eftir að hafa tapað fyrir ÍBV í fyrsta leik, en Ólafsvíkingar hafa tapað báðum leikjum sínum, gegn Blikum og Stjörnunni.

Atli Sigurjónsson.
Atli Sigurjónsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert