Breiðablik og ÍBV komust á sigurbraut

Blikar komust á sigurbraut í Lengjubikarnum með sigri gegn KA.
Blikar komust á sigurbraut í Lengjubikarnum með sigri gegn KA. Eva Björk Ægisdóttir

Breiðablik og ÍBV unnu sína fyrstu sigra í A deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag. ÍBV mætti Huginn í riðli 1 og Breiðablik lék gegn KA í riðli 2. 

ÍBV lenti ekki í teljandi vandræðum með Hugin, en lokatölur urðu 3:1 ÍBV í vil. Aron Bjarnason kom ÍBV yfir á 23. mínútu leiksins og Bjarni Gunnarsson tvöfaldaði forystuna í upphafi síðari hálfleiks. Elvar Ingi Vignisson skoraði þriðja mark ÍBV um miðbik seinni hálfleiks.

Leikmenn Hugins náðu að klóra í bakkann á 66. mínútu, en mark Seyðfirðinganna skoraði Pétur Óskarsson. ÍBV hefur því unnið einn leik og tapað einum í riðlinum þetta árið, en Huginn hefur tapað báðum.

Breiðablik vann góðan síðan sigur þegar liðið mætti KA í Fífunni í dag, en Atli Sigurjónsson og Jonathan Glenn skoruðu mörk Blika í 2:1 sigri liðsins. Þessi lið mættust í úrslitaleik keppninnar á síðasta ári og þá vann Breiðablik, 1:0.

Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði mark KA sem lék einum leikmanni færri frá því á fimmtu mínútu leiksins, en þá var Davíð Rúnari Bjarnasyni vikið af velli með rautt spjald.

Þetta var fyrsti sigur Blika í Lengjubikarnum í ár, en þeir töpuðu fyrir Fylki í fyrsta leik, og á sama tíma var þetta fyrsta tap KA-manna en þeir unnu stórsigur á Fjarðabyggð í fyrsta leik sínum.

Grindavík og HK skildu svo jöfn í riðli 3 í sömu deild, en lokatölur urðu 1:1. Magnús Björgvinsson skoraði mark Grindavíkur og Teitur Pétursson jafnaði metin fyrir HK. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert