Fylkir tók Breiðablik með í 8-liða úrslit

Oddur Ingi Guðmundsson skoraði fyrsta mark Fylkis í kvöld.
Oddur Ingi Guðmundsson skoraði fyrsta mark Fylkis í kvöld. mbl.is/Eva Björk

Nú er orðið ljóst hvaða lið mætast í 8-liða úrslitum Lengjubikars karla í knattspyrnu á þessari leiktíð.

Fylkir og Breiðablik voru síðustu liðin inn í 8-liða úrslit. Fylkismenn unnu KA 4:2 í kvöld og enduðu þar með á toppi 2. riðils með 13 stig, en Breiðablik endaði í 2. sæti með 10 stig. KA endaði í 4. sæti með 7 stig.

Hallgrímur Mar Steingrímsson kom KA reyndar yfir í kvöld en Fylkir svaraði með þremur mörkum á tíu mínútum um miðjan fyrri hálfleik, frá Oddi Inga Guðmundssyni, José Sito og Garðari Jóhannssyni. Garðar kom svo Fylki í 4:1 snemma í seinni hálfleik áður en Hallgrímur minnkaði muninn, en þar við sat.

Átta liða úrslitin verða því sem hér segir:

8-liða úrslit
Fylkir – KR
Valur – Breiðablik
Víkingur R. – Leiknir R.
FH – Keflavík

Áætlað er að leikirnir fari fram 10. apríl en það er með fyrirvara um breytingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert