Hef aldrei séð okkur svona lélega

Blikar voru ekki góðir í kvöld.
Blikar voru ekki góðir í kvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks var nánast í sjokki eftir tap liðins gegn Jelgava frá Lettlandi. Lokatölur á Kópavogsvelli urðu 3:2, gestunum í vil og Blikar þurfa nú að skora a.m.k. tvö mörk í seinni leiknum í Lettlandi, til að komast í aðra umferð forkeppni Evrópudeildarinnar.

„Þetta var hrein hörmung. Ég hef aldrei séð okkur svona lélega, þannig að þetta kom mjög flatt upp á mig þessi spilamennska. Það voru frábærar aðstæður, Evrópuleikur og ég hefði haldið að það væri tilhlökkun,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is.

„Jújú, við vorum meira með boltann en það telur ekkert þegar menn eru ekki nálægt mönnunum og skelfilegir í föstum leikatriðum. Við erum tapandi boltanum og í raun gefum við þeim öll þessi mörk. Í Evrópukeppni er þetta bara of dýrt.“

Oliver Sigurjónsson gaf Breiðablik líflínu með marki í uppbótartíma.
Oliver Sigurjónsson gaf Breiðablik líflínu með marki í uppbótartíma. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Ef ég gef eitthvað smá kredit á liðið, þá fannst mér við koma inn í seinni hálfleik sem smá Breiðablik og réðum í rauninni ferðinni. Það gekk að vísu erfiðlega að fá þetta annað mark en við fengum þó líflínu undir lokin þegar Oliver skoraði.“

Blaðamaður varpar fram þeirri skoðun sinni að lettneska liðið sé ekki það sterkt að einvígið sé búið, þó að seinni leikurinn fari fram í Lettlandi.

„Ég er sammála því en þá þurfum við líka að mæta frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Ég held að menn geri það í seinni leiknum,“ sagði Arnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert