Lýkur langri bið Blika í dag?

Bergsveinn Ólafsson, Höskuldur Gunnlaugsson og Kassim Doumbia í leik liðanna …
Bergsveinn Ólafsson, Höskuldur Gunnlaugsson og Kassim Doumbia í leik liðanna fyrr í sumar. mbl.is/Golli

FH-ingar eiga möguleika á að ná níu stiga forskoti í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag þegar þeir taka á móti Breiðabliki í Kaplakrika klukkan 17.

FH er með 37 stig, Fjölnir komst í gær í annað sætið með 31 stig með því að sigra Víking R. og Breiðablik er með 30 stig í þriðja sætinu. Kópavogsliðið gæti með sigri minnkað forskot Hafnarfjarðarliðsins niður í fjögur stig.

Sagan er ekki með Breiðabliki, en 21 ár er síðan félagið hefur fagnað útisigri gegn FH í efstu deild. Það var árið 1995 þegar Blikar unnu 4:2 í Kaplakrika. Rastislav Lazorik skoraði þá þrennu fyrir Breiðablik en Hörður Magnússon gerði bæði mörk FH.

Frá þeim tíma hafa liðin mæst 11 sinnum í Kaplakrika í deildinni og FH hefur unnið sex leikjanna en fimm hafa endað með jafntefli. Liðin hafa skilið jöfn þar undanfarin þrjú ár. Í fyrra stóð það þó afar tæpt hjá FH-ingum því Kassim Doumbia jafnaði metin í uppbótartíma eftir að Arnþór Ari Atlason kom Blikum yfir. Bjarni Þór Viðarsson fékk rauða spjaldið rétt fyrir leikslok en tíu FH-ingar knúðu fram jöfnunarmark engu að síður.

Leikir dagsins í Pepsi-deild karla eru þessir:

17.00 FH - Breiðablik
17.00 Fylkir - Víkingur Ó.
17.00 Þróttur R. - ÍA
20.00 Stjarnan - Valur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert