Damir og Gísli frömdu agabrot

Gísli Eyjólfsson var settur á varamannabekk Breiðabliks í leik liðsins …
Gísli Eyjólfsson var settur á varamannabekk Breiðabliks í leik liðsins gegn ÍBV í dag vegna agabrots. Eggert Jóhannesson

„Við vorum afar heppnir að fá eitthvað út úr þessum leik þar sem við vorum afar slakir í þessum leik. Eyjamenn voru mikið grimmari en við og voru mun nær því að hafa betur í þessum leik en við,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is, eftir 1:1 jafntefli liðsins gegn ÍBV í 20. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld. 

Úrslit kvöldsins þýða það að FH varð Íslandsmeistari annað árið í röð og Arnar hefur hugmyndir um hvað til þarf til þess að velta Íslandsmeisturunum af stalli á næstu leiktíð. 

„Það vantaði stöðugleika í okkar spilamennsku og meiri líkamlegan styrk. Það sýndi sig til að mynda í kvöld að við vorum undir í návígjum, þeir hlupu meira og börðust meira. Það er alveg sama hversu góður þú ert í fótbolta, það gerist ekkert ef þú nennir ekki að hlaupa,“ sagði Arnar sem var augljóslega óánægður með vinnuframlag leikmanna sinna. 

„Ég hefði getað gert 11 skiptingar í hálfleik, en við megum það víst ekki. Skiptingarnar sem við gerðum í hálfleik hleyptu lífi í leik okkar og við náðum að jafna metin, en svo fannst mér þetta fjara út aftur og eins og ég sagði áðan þá voru þeir mun líklegri til þess að tryggja sér sigurinn undir lokin en við,“ sagði Arnar enn fremur um frammistöðu Breiðabliks í kvöld. 

Arnar gerði þrjár breytingar á byrjunarliði Breiðabliks sem vann öruggan 3:0 sigur gegn Val í síðustu umferð. Það voru tvenns konar ástæður fyrir þeim breytingum.

„Við ákváðum bara að hvíla Alfons [Sampsted] sem hefur spilað mikið undanfarið. Damir [Muminovic] og Gísli [Eyjólfsson] voru hins vegar teknir út úr byrjunarliðinu vegna agabrots. Þeir voru aðeins of lengi úti á föstudagskvöldið. Það var engin drykkja í spilinu, en þeir voru of lengi úti að okkar mati og við ákváðum að kæla þá aðeins,“ sagði Arnar um ástæðu þess að hann gerði þessar breytingar á byrjunarliði sínu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert