Koma sólarhring fyrir leik til Íslands

Aron Einar Gunnarsson í baráttunni við Luka Modric í leiknum …
Aron Einar Gunnarsson í baráttunni við Luka Modric í leiknum á síðasta ári. AFP

Króatíska karlalandsliðið í knattspyrnu er ekki væntanlegt til landsins fyrr en um miðjan dag í dag þegar það kemur með leiguflugi frá Zagreb.

Króatar, undir stjórn Ante Cacic, hafa æft saman síðan á mánudag, fyrst í Sveti Martin na Murin, litlum ferðamannabæ sem er nyrsta byggðarlag Króatíu. Þaðan færðu þeir sig yfir til Zagreb á fimmtudaginn og æfðu á þjóðarleikvanginum Maksimir í tvo daga.

Í kvöld klukkan 18.45 æfa Luka Modric og félagar á Laugardalsvellinum, á sama tíma og flautað verður til leiks þar gegn Íslandi sólarhring síðar.

Króatar urðu fyrir áfalli þegar ljóst varð að Danijel Subasic, markvörðurinn öflugi frá Mónakó, yrði ekki með gegn Íslandi vegna meiðsla í hásin. Skarð hans fyllir Lovre Kalinic, 2,01 m hár markvörður Gent í Belgíu sem var útnefndur besti markvörðurinn þar í landi á nýliðnu tímabili. Kalinic hefur leikið einn leik í undankeppninni, 1:1 leikinn við Tyrki í fyrstu umferð, sem er einmitt eina markið sem Króatía hefur fengið á sig til þessa. Hann hefur annars verið varamaður fyrir Subasic undanfarin ár og alls spilað átta landsleiki.

Áður lá fyrir að Ivan Rakitic, leikmaður Barcelona, yrði ekki með vegna meiðsla og Vedran Corluka, varnarmaðurinn reyndi, er líka frá keppni. Dejan Lovren frá Liverpool er hins vegar í hópnum í fyrsta sinn í nokkurn tíma. Mateo Kovacic, nýkrýndur Evrópumeistari með Real Madrid, kemur væntanlega inn í byrjunarliðið fyrir Rakitic og þá er Ivan Perisic frá Inter Mílanó með á ný eftir að hafa tekið út leikbann í síðasta leik, gegn Úkraínu.

Króatar eru með 13 stig á toppi riðilsins þegar keppnin er hálfnuð. Ísland er með 10 stig, Úkraína 8, Tyrkland 8, Finnland 1 og Kósóvó 1. Á morgun leikur Finnland við Úkraínu og Kósóvó tekur á móti Tyrklandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert