„Gleðilega hátíð Íslendingar“

Hörður Björgvin Magnússon fagnar sigurmarki sínu gegn Króatíu í kvöld.
Hörður Björgvin Magnússon fagnar sigurmarki sínu gegn Króatíu í kvöld. mbl.is/Golli

„Ég gæti ekki verið ánægðari með það að spila fyrir þessa þjóð,“ sagði Hörður Björgvin Magnússon við mbl.is en hann var hetja Íslands þegar hann skoraði sigurmarkið í 1:0-sigri á Króatíu á lokamínútu leiksins á Laugardalsvelli í undankeppni HM í kvöld.

„Þetta gerðist í hálfgerðu „slow-motion.“ Ég sá þetta gerast voðalega hægt og er ekki viss hvort ég skallaði boltann inn eða notaði öxlina. En hversu sætt er það að vinna Króatíu 1:0, hvað þá með marki í lokin og ég er bara ótrúlega ánægður með liðsheildina og hvernig við spiluðum,“ sagði Hörður Björgvin, sem var þó ekki viss um að geta klárað leikinn.

„Ég var kominn með krampa eftir 60 mínútur, en fyrirliðinn reif mig í gang og sagði mér að halda áfram. Ég á honum margt að þakka og hvað þá öllu liðinu, ég er gríðarlega ánægður hvernig við spiluðum leikinn og hvernig þjálfarateymið lagði leikinn upp,“ sagði Hörður, sem talaði mikið um liðsheildina sem er náttúrulega mögnuð.

„Já og hvað þá þessir stuðningsmenn. Það gefur okkur meira en helming og það er kominn tími til þess að stækka Laugardalsvöll og fjölga sætum,“ sagði Hörður Björgvin. Hann hefur spilað vinstri bakvörð í landsliðinu en var að skora núna sigurmarkið í öðrum leiknum í röð eftir að hafa tryggt Íslandi sigur á Írlandi í vináttuleik í vor. Er hann ekki bara að spila vitlausa stöðu?

„Það er alltaf gaman að skora og hvað þá að eiga sigurmark í tveimur leikjum í röð. Ég reyni að gera mitt besta fyrir landsliðið og það er gott að bæta upp fyrir síðasta leik gegn Króatíu. Auðvitað var völlurinn þá skelfilegur og veðrið líka, en það var sætt að vinna þá núna,“ sagði Hörður Björgvin

Leikurinn í kvöld markaði endinn á löngu og ströngu tímabili hjá honum með félagsliði og landsliði, en hefði hann getað klárað tímabilið á betri hátt?

„Nei, það er gott að fagna og nú ættum við að drífa okkur að halda upp á 17. júní. Gleðilega hátíð Íslendingar,“ sagði hetjan Hörður Björgvin Magnússon í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert