Ábyrgðarlaus framkvæmd á vítaspyrnunni

Milos Milojevic, þjálfari Breiðabliks.
Milos Milojevic, þjálfari Breiðabliks. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Ég er að sjálfsögðu alls ekki sáttur við að tapa þessum leik og einkum og sér í lagi af því að mér fannst vanta upp á baráttu og að grunnatriðin væru í lagi í þessum leik,“ sagði Milos Milojevic, þjálfari Breiðabliks, eftir 3:1-tap liðsins gegn KR í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Við missum einbeitinguna í þremur tilfellum eftir föst leikatriði og vissir leikmenn sem axla ekki þá ábyrgð í varnarleiknum sem þarf að axla. Við höfum ekki verið að gera svona mistök í undanförnum leikjum og þess vegna er þetta einkennilegt að mínu mati,“ sagði Milos aðspurður um hvað hefði vantað upp á hjá sínum mönnum í kvöld. 

Gísli Eyjólfsson fékk kjörið tækifæri til þess að koma Breiðabliki inn í leikinn í stöðunni 3:1 um miðbik seinni hálfleiks, en hann vippaði boltanum nokkuð kæruleysislega í þverslána úr vítaspyrnu. 

„Mér fannst þetta ábyrgðarlaus framkvæmd á vítaspyrnunni. Við verðum allir að hafa í huga að mótið er ekki búið og við erum að sogast í alvarlega fallbaráttu. Við hengjum ekki Gísla fyrir þetta, en hann eins og fleiri leikmenn liðsins verða að læra af mistökum sem þeir gerðu í þessum leik,“ sagði Milos um vítaspyrnuna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert