KR-ingar ráku af sér slyðruorðið

Elfar Freyr Helgason og Kennie Chopart í leik Breiðabliks og …
Elfar Freyr Helgason og Kennie Chopart í leik Breiðabliks og KR í dag. mbl.is/Árni Sæberg

KR hélt sér inni í baráttunni um sæti í Evrópudeild karla í knattspyrnu með 3:1-sigri sínum gegn Breiðablik í 19. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi-deildarinnar í kvöld.

Það var allt annað að sjá til KR-liðsins í þessum leik en í 3:0-tapinu gegn ÍBV í síðustu umferð deildarinnar. Skúli Jón Friðgeirsson kom KR yfir strax á sjöttu mínútu leiksins þegar hann skoraði með skoti af stuttu færi eftir hornspyrnu Óskars Arnar Haukssonar.

Andre Bjerregaard tvöfaldaði svo forystu KR-inga og aftur skoruðu gestirnir úr Vesturbænum eftir hornspyrnu Óskars Arnar. Boltinn hrökk til Bjerregaard sem þrumaði boltanum upp í þaknetið.

KR-ingar bættu við þriðja marki sínu um miðbik seinni hálfleiks og enn var það eftir fast leikatriði hjá Óskari Erni. Aron Bjarki skoraði þá með skemmtilegri hælspyrnu, en Bjerregaard hafði skallað boltann til hans eftir aukaspyrnu Óskars Arnar.

Gísli Eyjólfsson fékk upplagt tækifæri til þess að koma Breiðablik inn í leikinn á nýjan leik þegar rúmar 20 mínútur voru eftir af leiknum. Gísli vippaði þá boltanum í þverslána úr vítaspyrnu.

KR innbyrti þar af leiðandi þrjú stig sem þýðir að liðið er komið með 29 stig, en KR-ingar eru enn tveimur stigum á eftir FH sem er sæti ofar og á þar að auki leikt til góða á Vesturbæinga.  

Breiðablik 1:3 KR opna loka
90. mín. Leik lokið með 3:1-sigri KR sem heldur sér í seilingarfjarlægð frá sæti í Evrópukeppni á næstu leiktíð.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert