Breiðablik skoraði sex

Gísli Eyjólfsson og Arnþór Ari Atlason skoruðu í kvöld.
Gísli Eyjólfsson og Arnþór Ari Atlason skoruðu í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breiðablik var í miklu stuði er liðið mætti Þrótti R. í Lengjubikar karla í fótbolta í Egilshöllinni í kvöld. Lokatölur urðu 6:0 og skoruðu Blikar fjögur mörk á síðustu tíu mínútunum.

Hrvoje Tokic kom Breiðabliki á bragðið á 25. mínútu og aðeins mínútu síðar skoraði Arnþór Ari Atlason. Staðan í hálfleik var 2:0, en Blikar sýndu allar sínar bestu hliðar í seinni hálfleik. Gísli Eyjólfsson skoraði þriðja markið á 80. mínútu, Sveinn Aron Guðjohnsen fjórða markið á 86. mínútu og Arnór Gauti Ragnarsson bætti við tveimur mörkum í blálokin. Breiðablik hefur unnið báða leiki sína í Lengjubikarnum til þessa en Þróttur tapað sínum leikjum. 

Fyrr í dag fóru fram þrír leikir. Í Akraneshöllinni skildu Grindavík og Þór jöfn, 0:0 og í Reykjaneshöllinni vann FH 3:1-sigur á Selfossi. Steven Lennon skoraði tvö mörk fyrir FH og Halldór Orri Björnsson gerði eitt mark. Loks skildu Fylkir og HK jöfn, 2:2. Hákon Ingi Jónsson skoraði bæði mörk Fylkis og Guðmundur Þór Júlíusson bæði mörk HK, en upplýsingar um markaskorara í leik Fylkis og HK voru fengnar á fotbolti.net. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert