„Þetta var svona iðnaðarsigur“

Gísli Eyjólfsson.
Gísli Eyjólfsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var svona iðnaðarsigur, er það ekki enn þá notað?“ sagði kátur Gísli Eyjólfsson eftir að hafa skorað sigurmarkið í 1:0-sigri Breiðabliks á Keflavík í 3. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag.

Blikar eru áfram með fullt hús stiga í deildinni en þurftu þó að hafa fyrir stigunum í kvöld gegn öguðum og sterkum Keflvíkingum.

„Við náðum engan veginn okkar takti í sókninni en allt liðið varðist virkilega vel. Þá þarf bara eitt mark til að taka þessa þrjá punkta.“

Keflvíkingar voru fastir fyrir en Gísli segir Blika einfaldlega hafa svarað í sömu mynt.

„Við vorum bara líka fastir fyrir og svöruðum á móti. Það er samt hundleiðinlegt að það má ekki aðeins kýtast á í þessu.“

Gísli skoraði eina mark leiksins og var það ekki af verri endanum en hann sneri boltann í fjærhornið, alveg út við stöng, með föstu skoti fyrir utan vítateig. Það var ekki upprunalega ætlunin.

„Ég var að leita að Arnþóri, ég heyrði hann öskra á mig. Svo sá ég hann ekki þannig að ég lét bara vaða, það var virkilega sætt að sjá hann þarna inni.“

Að lokum sagði Gísli að markmið Blika fyrir sumarið væru einföld.

„Klárlega, við settumst niður fyrir tímabilið og ákváðum að markmiðið væri eitt af efstu þremur sætunum, vonandi gengur það upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert