Breiðablik tók toppsætið af Grindavík

Blikinn Gísli Eyjólfsson rekur knöttinn áfram með Sam Hewson á …
Blikinn Gísli Eyjólfsson rekur knöttinn áfram með Sam Hewson á eftir sér á Grindavíkurvelli í dag. Ljósmynd/Víkurfréttir/Hilmar

Breiðablik er komið í toppsæti Pepsi-deildar karla í fótbolta eftir 2:0-sigur á Grindavík á útivelli í 8. umferðinni í dag. Sigurinn var sanngjarn en bæði mörkin komu í síðari hálfleik.

Fyrri hálfleikur var frekar jafn og skiptust liðin á að sækja. Breiðablik var hins vegar ögn sterkari aðilinn og fékk bestu færin. Það allra besta fékk Willum Þór Willumson er hann fékk boltann á markteig en Jón Ingason bjargaði ótrúlega vel er Willum tók skotið. Í kjölfarið kom hornspyrna og boltinn barst á Davíð Kristján Ólafsson sem átti lúmskt skot í stöngina. Staðan í hálfleik var hins vegar markalaus.

Blikar héldu áfram að sækja í síðari hálfleik og Sveinn Aron Guðjohnsen átti gott skot í stöng á 48. mínútu. Nokkrum mínútum síðar skoraði Jose Sito en flaggið var komið á loft og Spánverjinn dæmdur rangstæður.

Það var hins vegar ekkert að markinu hjá Sveini Aroni Guðjohnsen á 63. mínútu. Hann fékk þá boltann innan teigs, bjó sig til pláss með snyrtilegri snertingu, áður en hann kláraði upp í fjærhornið með stæl. Sjö mínútum síðar var staðan orðin 2:0. Gísli Eyjólfsson fékk þá boltann á vinstri vængnum og ætlaði hann að senda fyrir, boltinn hafnaði hins vegar í fjærhorninu, án þess að nokkur annar hafi snert boltann.

Á 87. mínútu fékk Arnþór Ari Atlason sitt annað gula spjald er hann mótmælti aukaspyrnu sem dæmd var á Willum. Það kom hins vegar ekki að sök fyrir Breiðablik sem fer upp í toppsætið í bili hið minnsta. Íslandsmeistarar Vals ná því hins vegar með sigri á KA í dag. 

Grindavík 0:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fimm mínútur í uppbótartíma. Grindvíkingar hafa ekkert ógnað manni fleiri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert