ÍBV og Breiðablik gerðu í dag markalaust jafntefli í 12. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta. Leikurinn fór fram á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum.
Þrátt fyrir markaleysið vantaði ekki færin hjá báðum liðum. Breiðablik komst næst því að skora er Oliver Sigurjónsson fór á vítapunktinn í uppbótartíma. Halldór Páll Geirsson varði hins vegar spyrnuna og tryggði ÍBV stig.
Breiðablik er í þriðja sæti með 19 stig og ÍBV í áttunda sæti með 12 stig.