Alexander skaut Breiðabliki á toppinn

Arnór Sveinn Aðalsteinsson sækir að Aroni Bjarnasyni á Kópavogsvelli í …
Arnór Sveinn Aðalsteinsson sækir að Aroni Bjarnasyni á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breiðablik er komið í toppsæti Pepsi-deildar karla í fótbolta eftir 1:0-sigur á KR á heimavelli í kvöld. Alexander Helgi Sigurðarson skoraði sigurmarkið í seinni hálfleik. 

Í fyrri hálfleik fengu liðin hvort sitt góða færið. Thomas Mikkelsen teygði sig í boltann eftir aukaspyrnu Gísla Eyjólfssonar en setti hann í slána. Hinum megin átti Óskar Örn Hauksson vippu af um 45 metra færi og boltinn fór beint á Gunnleif Gunnleifsson í markinu. Markmaðurinn missti hins vegar boltann og hrasaði, en boltinn dansaði á línunni áður en hann bjargaði.

Það reyndust einu alvörufærin í rólegum hálfleik. Seinni hálfleikurinn fór líka mjög rólega af stað og virtust liðin hrædd við að tapa leiknum. Fyrsta markið kom hins vegar á 70. mínútu og það skoraði Alexander Helgi Sigurðarson. Hann átti þá lúmskt skot fyrir utan teig og boltinn rúllaði í fjærhornið, fram hjá seinum Beiti Ólafssyni.

KR fékk tvö skallafæri í uppbótartíma en hvorki Björgvin Stefánsson né Pablo Punyed fundu leið fram hjá Gunnleifi Gunnleifssyni í marki Breiðabliks og því fór sem fór. 

Breiðablik 1:0 KR opna loka
90. mín. Pálmi Rafn Pálmason (KR) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert