Blikar endurheimtu toppsætið

Sölvi Snær Guðbjargarson og Viktor Örn Margeirsson á Samsung-vellinum í …
Sölvi Snær Guðbjargarson og Viktor Örn Margeirsson á Samsung-vellinum í kvöld. mbl.is/Arnþór

Breiðablik endurheimti toppsæti Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu með því að leggja Stjörnuna að velli, 3:1, á Samsung-vellinum í Garðabæ í fyrsta leik níundu umferðarinnar í kvöld.

Nokkuð vindasamt var á Samsung-vellinum í kvöld og fótboltinn nokkuð eftir því en báðum lið gekk nokkuð illa að skapa sér færi. Eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn tókst heimamönnum hins vegar að færa sig nokkuð upp á skaftið og áttu þeir nokkrar marktilraunir sem Gunnleifur Gunnleifsson þurfti að verja í marki Blika.

Það var svo strax í upphafi síðari hálfleiks að Stjörnumenn brutu loks ísinn. Hilmar Árni Halldórsson reyndi þá skot úr aukaspyrnu rétt utan teigs en boltinn fór af varnarmanni og datt þaðan fyrir Ævar Inga Jóhannesson sem skaut boltanum í fyrsta í bláhornið hægra megin, staðan orðin 1:0.

Það kom á óvart að Aron Bjarnason skyldi hefja kvöldið á varamannabekk Breiðabliks en hann kom inn á 55. mínútu og beið ekki lengi með að setja mark sitt á leikinn. Á 66. mínútu jafnaði hann metin með glæsilegu skoti nánast úr horninu sjálfu, upp í fjærhornið eftir að Guðjón Pétur Lýðsson tók stutta hornspyrnu og gaf á hann.

Eftir þetta jöfnunarmark voru það gestirnir úr Kópavoginum sem gáfu í enda toppsætið innan seilingar. Aron Bjarnason hélt áfram að reynast varnarmönnum Stjörnunnar erfiður en á 78. mínútu var það Guðjón Pétur sem kom Breiðabliki yfir með stórglæsilegu marki beint úr aukaspyrnu. Alexander Helgi Sigurðarson rak svo smiðshöggið á glæsilegan sigur Blika þegar hann skoraði úr skyndisókn eftir fyrirgjöf frá Aroni sem átti frábæra innkomu í kvöld.

Stjarnan 1:3 Breiðablik opna loka
90. mín. Síðasta mínútna í venjulegum leiktíma og þetta er að fjara út. Heimamenn hafa lítið sem ekkert sótt undanfarnar mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert