Toppslagur í Vesturbæ

Óskar Örn Hauksson og Andri Rafn Yeoman mætast á Meistaravöllum …
Óskar Örn Hauksson og Andri Rafn Yeoman mætast á Meistaravöllum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sannkallaður stórleikur fer fram í Vesturbænum þegar topplið KR fær Breiðablik í heimsókn á Meistaravelli í 11. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, í kvöld klukkan 19:15.

KR er í efsta sæti deildarinnar með 23 stig en Breiðablik er í öðru sætinu með 22 stig. Bæði lið hafa leikið tíu leiki í sumar en KR og Breiðablik hafa talsvert forskot á næstu lið í töflunni. Vesturbæingar hafa verið á miklu skriði í deildinni en liðið hefur unnið sex leiki í röð.

Blikar töpuðu nokkuð óvænt fyrir Fylki í Árbænum í áttundu umferð, 4:3, en annars hefur liðið unnið fjóra leiki og tapað einum í síðustu fimm deildarleikjum sínum. Í síðustu fimm leikjum liðsins í öllum keppnum hefur Breiðablik tvívegis fagnað sigri og þrisvar sinnum hafa liðin gert jafntefli.

Síðast þegar liðin mættust í Vesturbænum í deildinni síðasta sumar var jafntefli niðurstaðan, 1:1. Willum Þór Willumsson kom Breiðabliki yfir á 65. mínútu en Kennie Knack Chopart jafnaði metin fyrir KR, tveimur mínútum síðar. Breiðablik hafði svo betur í seinni umferðinni í Kópavogi þar sem Alexander Helgi Sigurðarson skoraði sigurmark leiksins á 73. mínútu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert