HK vann afar góðan 2:1-sigur á Breiðabliki í Kópavogsslag í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld. Með sigrinum fór HK upp í ellefu stig, en Breiðablik er enn þá í öðru sæti og sjö stigum á eftir toppliði KR.
Breiðablik var mikið betri aðilinn í fyrri hálfleiknum og fékk góð færi til að skora fyrsta markið. Thomas Mikkelsen var mjög áberandi í sóknarlínu Breiðabliks, en þrátt fyrir það þurfti Arnar Freyr Ólafsson ekki að taka á honum stóra sínum í marki, þar sem Blikum gekk illa að hitta á markið.
Eftir því sem leið á hálfleikinn komst HK betur inn í leikinn, en það var fátt sem benti til þess að HK-ingar myndu skora. Það gerðu þeir samt sem áður og kom fyrsta markið á 42. mínútu. Atli Arnarson skoraði þá með skalla eftir langa sendingu Björns Berg Bryde.
Gunnleifur Gunnleifsson og Viktor Örn Margeirsson litu ekki vel út í markinu og var eftirleikur Atla auðveldur. Það reyndist eina mark fyrri hálfleiks og voru HK-ingar yfir í hálfleik, þótt Breiðablik hafi verið töluvert sterkari aðilinn.
Breiðablik hélt áfram að sækja í seinni hálfleik, en rétt eins og í fyrri hálfleik var það HK sem skoraði. Atli var aftur á ferðinni á 60. mínútu með góðu skoti eftir að Birkir Valur Birkisson skaut í varnarmann.
Breiðablik brást við með að setja Aron Bjarnason, Gísla Eyjólfsson og Þóri Guðjónsson inn á. Það skilaði sér á 89. mínútu því Aron sendi fyrir frá vinstri á kollinn á Þóri sem skoraði af stuttu færi. Nær komst Breiðablik ekki og mikilvægur sigur HK raunin.