Karaktersigur Víkinga gegn Blikum

Davíð Örn Atlason og Örvar Eggertsson reyna að ná boltanum …
Davíð Örn Atlason og Örvar Eggertsson reyna að ná boltanum en Höskuldur Gunnlaugsson hefur hann í leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór

Víkingar eru komnir upp úr fallsæti eftir frábæran 3:2-sigur gegn Breiðabliki í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í 14. umferð deildarinnar á Víkingsvelli í Fossvogi í kvöld í frábærum fótboltaleik. Nikolaj Hansen og Guðmundur Andri Tryggvason skoruðu mörk Víkinga í leiknum en Thomas Mikkelsen og Viktor Karl Einarsson skoruðu mörk Blika.

Breiðablik byrjaði leikinn af miklum krafti og strax á upphafsmínútunum átti Höskuldur Gunnlaugsson frábært skot rétt fyrir utan teig sem Þórður Ingason gerði vel í að halda. Fjórum mínútjm síðar fékk Gísli Eyjólfsson algjört dauðafæri til þess að koma Blikum yfir en frítt skot hans úr miðjum teignum fór rétt yfir markið. Á 13. mínútu átti Ágúst Eðvald Hlynsson frábæra aukaspyrnu frá eigin vallarhelmingi á Guðmund Tryggvason sem skallaði boltinn niður fyrir Nikolaj Hansen. Daninn fór fram hjá Viktori Erni Margeirssyni í fyrstu tilraun og þrumaði boltanum milli fóta Gunnleifs Gunnleifssonar í marki Breiðabliks og staðan orðin 1:0. Leikurinn róaðist talsvert eftir markið og Víkingar voru duglegir að ógna úr föstum leikatriðum á meðan Blikum gekk illa að skapa sér afgerandi marktækifæri. Thomas Mikkelsen fékk dauðafæri til að janfa metin á 24. mínútu en Þórður í marki Víkinga kom út á móti og lokaði vel á Danann.

Hvorugu liðinu tókst að skapa sér afgerandi marktækifæri eftir þetta. Nikolaj Hansen var duglegur að ógna í loftinu en skallar hans fóru iðulega framhjá markinu og þá átti Höskuldur fínt skot úr teignum sem fór rétt yfir mark Víkinga á 37. mínútu. Nikolaj Hansen fékk svo algjört dauðafæri til að tvöfalda forystu Víkinga í uppbótartíma fyrri hálfleiks en frír skalli hans úr markteignum fór rétt yfir markið. Síðari hálfleikurinn hófst með miklum látum en Blikar jöfnuðu metin strax á 54. mínútu þegar Karl Friðleifur Gunnarsson átti frábæra fyrirgjöf frá hægri á Mikkelsen sem stýrði boltanum af öruggi í markið af stuttu færi. Víkingar voru ekki lengi að svara því Guðmundur Andri Tryggvason kom þeim yfir í næstu sókn þegar hann stýrði fyrirgjöf Atla Rafns í fjærhornið af stuttu færi og staðan orðin 2:1.

Blikar brunuðu upp í sókn og Höskuldur Gunnlaugsson sendi boltann á fjærstöngina þar sem Viktor Karl Einarsson var mættur og hann skallaði boltann yfir Gunnleif í marki Blika í fjærhornið og staðan aftur orðin jöfn. Tíu mínútum síðar fékk Davíð Örn Atlason mikinn tíma til þess að athafna sig í vallarhelmingi Breiðabliks. Hann keyrði í átt að miðvörðum Blika, sendi boltann á fjærstöngina, þar sem Guðmundur Andri var mættur og hann stýrði boltanum upp í samskeytin og staðan orðin 3:2. Kolbeinn Þórðarson fékk frábært færi til að jafna metin fyrir Blika á 78. mínútu en skot hans fór rétt framhjá marki Víkinga af stuttu færi úr teignum. Blikar sóttu án afláts á lokamínútum leiksins en tókst ekki að brjóta þéttan varnarmúr Víkinga á bak aftur og þar við sat. Víkingar fara með sigrinum upp í tíunda sæti deildarinnar og upp úr fallsæti í 16 stig en Breiðablik er sem fyrr í öðru sætinu með 23 stig.

Víkingur R. 3:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Alexander H. Sigurðarson (Breiðablik) á skot framhjá +2 - Heimskulegt skot af 35 metra færi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert