Víkingur í úrslit í fyrsta sinn frá 1971

Ágúst Hlynsson úr Víkingi með boltann í kvöld. Damir Muminovic, …
Ágúst Hlynsson úr Víkingi með boltann í kvöld. Damir Muminovic, Breiðabliki, sækir að honum. mbl.is/Arnþór

Víkingur mætir FH í bikarúrslitum eftir 3:1-sigur á Breiðabliki í undanúrslitum Mjólkurbikars karla í fótbolta á heimavelli fyrir framan 1.848 áhorfendur í Víkinni í kvöld, en það er nýtt áhorfendamet á Víkingsvellinum. 

Fyrri hálfleikur var jafn framan af og gekk liðunum illa að skapa sér færi. Leikurinn lifnaði hins vegar heldur betur við síðustu tíu mínúturnar. Það byrjaði allt þegar Thomas Mikkelsen kom Breiðabliki yfir úr vítaspyrnu á 35. mínútu, en hann náði í vítið sjálfur. 

Í stað þess að leggja árar í bát jöfnuðu Víkingar aðeins fimm mínútum síðar. Óttar Magnús Karlsson skoraði þá úr glæsilegri aukaspyrnu rétt utan teigs, sláin inn. Óttar skoraði keimlíkt mark gegn ÍBV í síðustu umferð deildarinnar og er kominn með fjögur mörk í þremur leikjum hjá Víkingum í sumar. 

Heimamenn voru ekki hættir, því Nikolaj Hansen slapp einn í gegn eftir glæsilega stungusendingu Júlíusar Magnússonar í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Hansen gerði allt rétt og skaut í bláhornið fjær með utanfótarskoti. Staðan í hálfleik var því 2:1. 

Seinni hálfleikurinn byrjaði svipað og sá fyrri. Lítið var um færi. Helstu tækifæri Breiðabliks komu úr langskotum, sem hittu ekki markið. Víkingar vörðust vel og var fátt sem benti til þess að Breiðablik væri að fara að jafna þegar seinni hálfleikur var hálfnaður. 

Þess í stað bættu Víkingar við marki á 69. mínútu. Guðmundur Andri Tryggvason skallaði þá í bláhornið eftir flottan sprett og fyrirgjöf Davíðs Arnar Atlasonar. Vont varð verra hjá Breiðabliki á 83. mínútu er Elfar Freyr Helgason fékk beint rautt spjald fyrir forljótt brot á Ágústi Hlynssyni. 

Tíu leikmenn Breiðabliks voru ekki líklegir til að minnka muninn og Víkingur fær tækifæri til að verða bikarmeistari í annað skiptið í sögunni. 

Víkingur R. 3:1 Breiðablik opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti sex mínútur í uppbótartíma. Nóg eftir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert