Annað sætið undir í Krikanum í kvöld

Gunnleifur Gunnleifsson horfir á liðsfélaga sína í Breiðabliki berjast gegn …
Gunnleifur Gunnleifsson horfir á liðsfélaga sína í Breiðabliki berjast gegn FH úr markinu fyrr í sumar. mbl.is/Hari

Það eru virkilega áhugaverðar viðureignir á dagskrá í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í kvöld þegar þrír síðustu leikirnir í 18. umferðinni fara fram.

FH tekur á móti Breiðabliki klukkan 18. Leikurinn átti upphaflega að fara fram í gær en var frestað um sólarhring vegna veðurs. Fyrir leikinn er Breiðablik í öðru sætinu með 30 stig en FH er í þriðja sæti með 28 stig.

Hafnfirðingar geta þar með tekið annað sætið af Blikum með sigri, á meðan Blikar freista þess að nýta sér mistök toppliðs KR. Vesturbæingar gerðu jafntefli við KA í gær og Blikar geta minnkað forskotið á toppnum niður í sjö stig með sigri þegar fjórir leiki eru eftir.

Klukkan 19.15 eru svo tveir leikir á dagskrá. Fylkir tekur á móti HK, sem er á miklu skriði og hefur ekki tapað í sjö leikjum í röð eða síðan í lok júní. Liðið er í fimmta sæti með 25 stig en Fylkir er með 22 stig í níunda sætinu, þremur stigum frá fallsæti.

Á sama tíma er flautað til leiks að Hlíðarenda þar sem Valur tekur á móti Stjörnunni. Stjarnan er með 27 stig, stigi á eftir FH í fjórða sætinu en Valur er í sjöunda sæti með 24 stig og gæti því jafnað Garðbæinga með sigri.

Leikir kvöldsins:

18.00 FH – Breiðablik
19.15 Fylkir – HK
19.15 Valur – Stjarnan

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert