Sex leikir Íslands og Albaníu – hverjir hafa tekið þátt?

Atli Eðvaldsson, liggjandi, horfir á eftir boltanum í netið eftir …
Atli Eðvaldsson, liggjandi, horfir á eftir boltanum í netið eftir að hafa tryggt íslenskan 2:0 sigur í fyrsta leik þjóðanna árið 1990. mbl.is/Einar Falur

Ísland og Albanía mætast í kvöld í sjöunda skipti í A-landsleik karla í knattspyrnu og hafa allir leikirnir nema einn verið liðir í undankeppni stórmóta. Ísland hefur unnið fjóra af þeim sex leikjum sem búnir eru, þar af þrjá þá síðustu, en allir nema sá fyrsti sem Ísland vann 2:0 á Laugardalsvellinum hafa endað með eins marks sigri á annanhvorn veginn.

Skoðum hvernig þessir sex leikir hafa gengið fyrir sig og hverjir tóku þátt í þeim fyrir Íslands hönd.

30.5. 1990 Ísland – Albanía 2:0 í undankeppni EM

Ísland fór vel af stað í undankeppninni fyrir EM 1992, undir stjórn danska þjálfarans Bo Johansson, og lagði Albana að velli á Laugardalsvellinum. Leikurinn var þó köflóttur og íslenska liðið átti í vök að verjast framan af. Atli Eðvaldsson stöðvaði Albani í þrígang í dauðafærum í íslenska vítateignum áður en Arnór Guðjohnsen kom Íslandi yfir á 42. mínútu eftir mikinn sprett upp völlinn.

Ísland tók völdin í seinni hálfleik og Atli gulltryggði sigurinn á 86. mínútu þegar hann kastaði sér fram og skoraði með skalla eftir fyrirgjöf Sigurðar Grétarssonar.

Lið Íslands: Birkir Kristinsson – Ólafur Þórðarson, Sævar Jónsson, Atli Eðvaldsson, Guðni Bergsson – Pétur Ormslev, Arnór Guðjohnsen, Þorvaldur Örlygsson (Kristján Jónsson 46.) – Pétur Pétursson, Guðmundur Torfason (Ormarr Örlygsson 66.), Sigurður Grétarsson.

26.5. 1991 Albanía – Ísland 1:0 í undankeppni EM

Seinni leikurinn fór fram í Tirana ári síðar og í millitíðinni hafði Ísland tapað fyrir Frökkum, Spánverjum og Tékkum. Marga sterka leikmenn vantaði vegna meiðsla og leikbanna og íslenska liðið náði sér aldrei á strik. Eduard Abazi skoraði sigurmark Albana á 56. mínútu eftir að íslenska liðið hafði misst boltann á eigin vallarhelmingi.

Lið Íslands: Bjarni Sigurðsson – Gunnar Gíslason, Sævar Jónsson, Guðni Bergsson, Ólafur H. Kristjánsson – Þorvaldur Örlygsson, Rúnar Kristinsson (Hlynur Stefánsson 62.), Ólafur Þórðarson, Sigurður Grétarsson – Anthony Karl Gregory (Andri Marteinsson 77.), Eyjólfur Sverrisson.

31.3. 2004 Albanía – Ísland 2:1, vináttulandsleikur

Þrettán árum síðar fór íslenska liðið, undir stjórn Ásgeirs Sigurvinssonar og Loga Ólafssonar, til Tirana og beið lægri hlut í vináttuleik. Hann var sögulegur fyrir þær sakir að þrír bræður voru í byrjunarliði Íslands, Þórður, Bjarni og Jóhannes Karl Guðjónssynir, og það var í fyrsta sinn síðan Hörður, Bjarni og Gunnar Felixsynir léku með Íslandi gegn Bretlandi árið 1963.

Ardian Aliaj kom Albönum yfir á 42. mínútu og þeir voru sterkari framan af leiknum. Þórður Guðjónsson jafnaði eftir sendingu Veigars Páls Gunnarssonar á 64. mínútu en Alban Bushi skoraði sigurmark Albana tólf mínútum síðar.

Lið Íslands: Árni Gautur Arason – Ívar Ingimarsson, Ólafur Örn Bjarnason, Pétur H. Marteinsson – Bjarni Guðjónsson (Arnar Þór Viðarsson 59.), Brynjar Björn Gunnarsson, Jóhannes Karl Guðjónsson (Gylfi Einarsson 79.), Þórður Guðjónsson, Indriði Sigurðsson (Kristján Örn Sigurðsson 85.) – Marel Baldvinsson (Veigar Páll Gunnarsson 59.), Heiðar Helguson (Hjálmar Jónsson 85.)

Birkir Bjarnason fagnar eftir að hafa skorað í rigningarleiknum í …
Birkir Bjarnason fagnar eftir að hafa skorað í rigningarleiknum í Albaníu árið 2012. Ljósmynd/Albanska knattspyrnusambandið


12.10. 2012 Albanía – Ísland 1:2 í undankeppni HM

Sigur Íslands í Tirana haustið 2012, undir stjórn Lars Lagerbäck, markaði ákveðin þáttaskil hjá landsliðinu sem hafði unnið Noreg en tapað fyrir Kýpur í tveimur fyrstu leikjunum í undankeppni HM. Með þessum torsótta sigri í ausandi rigningu þar sem um tíma stóð tæpt að hægt yrði að halda áfram að loknum fyrri hálfleik, varð ljóst að liðið ætti möguleika á að blanda sér í toppbaráttu riðilsins.

Birkir Bjarnason skoraði eftir 18 mínútur eftir langt innkast Arons Einars Gunnarssonar og skalla Alfreðs Finnbogasonar og síðan Kára Árnasonar í átt að markinu. Edgar Cani jafnaði tíu mínútum síðar en Gylfi Þór Sigurðsson skoraði eftirminnilegt sigurmark tíu mínútum fyrir leikslok með þrumufleyg úr aukaspyrnu í stöngina og inn.

Þá er leikurinn minnisstæður vegna ummæla Arons Einars Gunnarssonar, ungs fyrirliða íslenska liðsins, um albönsku þjóðina í viðtali við Fótbolti.net en KSÍ þurfti að biðjast afsökunar á þeim fyrir leik.

Lið Íslands: Hannes Þór Halldórsson – Grétar Rafn Steinsson, Kári Árnason, Ragnar Sigurðsson, Ari Freyr Skúlason – Rúrik Gíslason (Birkir Már Sævarsson 69.), Aron Einar Gunnarsson, Emil Hallfreðsson, Birkir Bjarnason (Jóhann Berg Guðmundsson 85.) – Gylfi Þór Sigurðsson, Alfreð Finnbogason (Eggert Gunnþór Jónsson 90.)

Kolbeinn Sigþórsson skorar sigurmarkið gegn Albönum 2013, 2:1.
Kolbeinn Sigþórsson skorar sigurmarkið gegn Albönum 2013, 2:1. mbl.is/Eggert Jóhannesson


10.9. 2013 Ísland – Albanía 2:1 í undankeppni HM

Þegar liðin mættust aftur á Laugardalsvellinum ellefu mánuðum síðar var heldur betur komin spenningur í íslenska knattspyrnuáhugamenn sem eygðu raunhæfa möguleika á að komast í umspilið fyrir HM. Uppselt var á leikinn sem var ekki daglegt brauð fram að því en hefð næstu árin.

Sigur gegn Albönum var bráðnauðsynlegur til að umspilsdraumurinn gæti ræst en leikurinn byrjaði illa því Valdet Rama kom Albönum yfir eftir átta mínútna leik, þegar hann skoraði eftir góða skyndisókn. Ísland var þó ekki lengi að svara því fimm mínútum síðar skoraði Birkir Bjarnason með skoti af stuttu færi eftir fyrirgjöf Birkis Más Sævarssonar. Í byrjun síðari hálfleiks náði Kolbeinn Sigþórsson að skora með hælspyrnu af stuttu færi eftir fyrirgjöf Birkis Más, 2:1, og Ísland landaði eftir það sigrinum af nokkru öryggi, og var komið í annað sæti riðilsins.

Lið Íslands: Hannes Þór Halldórsson – Birkir Már Sævarsson (Hallgrímur Jónasson 90.), Kári Árnason, Ragnar Sigurðsson, Ari Freyr Skúlason – Jóhann Berg Guðmundsson, Aron Einar Gunnarsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Birkir Bjarnason – Eiður Smári Guðjohnsen (Ólafur Ingi Skúlason 78.), Kolbeinn Sigþórsson.

Ari Freyr Skúlason sendir boltann fyrir mark Albana í leik …
Ari Freyr Skúlason sendir boltann fyrir mark Albana í leik liðanna í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson


8.6. 2019 Ísland – Albanía 1:0 í undankeppni EM

Fyrri leikur þjóðanna í þessari undankeppni fór fram fyrir aðeins þremur mánuðum á Laugardalsvellinum en Ísland hafði þá unnið Andorra og tapað fyrir Frakklandi í tveimur fyrstu leikjunum í mars.

Þetta var jafn hörkuleikur þar sem liðin sköpuðu sér ekki mörg marktækifæri. Jóhann Berg Guðmundsson skoraði sigurmarkið strax á 22. mínútu með glæsilegu einstaklingsframtaki en hann fékk boltann frá Birki Bjarnasyni, þræddi sig framhjá þremur varnarmönnum og skaut föstu skoti í hornið fjær. Kolbeinn Sigþórsson var rétt búinn að bæta við öðru marki í blálokin en Etrit Berisha varði naumlega frá honum.

Lið Íslands: Hannes Þór Halldórsson – Hjörtur Hermannsson, Kári Árnason, Ragnar Sigurðsson, Ari Freyr Skúlason – Jóhann Berg Guðmundsson (Arnór Ingvi Traustason 56.), Aron Einar Gunnarsson Gylfi Þór Sigurðsson, Birkir Bjarnason, Rúnar Már Sigurjónsson (Arnór Sigurðsson 82.) – Viðar Örn Kjartansson (Kolbeinn Sigþórsson 65.)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert