Rosalegar lokamínútur í sigri Blika í Vesturbæ

Kristinn Steindórsson og Atli Sigurjónsson í baráttunni á Meistaravöllum í …
Kristinn Steindórsson og Atli Sigurjónsson í baráttunni á Meistaravöllum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Breiðablik gerði góða ferð í Vesturbæinn í kvöld og vann sigur á heimamönnum í KR, 3:2, í fyrsta grasleik sumarsins í fjórðu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu.

Leikurinn fór eins og við var að búast nokkuð brösulega af stað hjá báðum liðum enda aðstæður á Meistaravöllum ekki til fyrirmyndar. Grasið að stærstum hluta gult á litinn og greinilega búið að setja mikinn sand í það. Báðum liðum gekk illa að halda í boltann en þegar leið á leikinn fór það þó að ganga aðeins betur, líkt og liðin næðu aðeins að venjast aðstæðum.

Alex Þór Hauksson fékk besta færi KR í fyrri háfleiknum þegar hann fékk nánast frían skalla af stuttu færi eftir hornspyrnu Arons Þórðar Albertssonar. Alex náði hins vegar ekki að stýra skallanum á markið og setti boltann framhjá stönginni.

Aron Bjarnason og Kristinn Steindórsson fengu bestu færi Breiðabliks í fyrri hálfleik. Aron fékk gott færi í teignum eftir fyrirgjöf Kristins Jónssonar en hitti ekki markið. Skömmu áður hafði Kristinn fengið boltann við vítateigslínuna en setti boltann rétt yfir þverslánna.

Það var svo á 60. mínútu sem fyrsta markið kom. Viktor Karl Einarsson átti þá algjörlega frábæra fyrirgjöf frá hægri í hlaupið hjá Kristni Steindórssyni sem kláraði mjög vel í fyrstu snertingu.

Breiðablik tvöfaldaði svo forystu sína á 77. mínútu. Höskuldur Gunnlaugsson átti þá hornspyrnu á nærsvæðið sem Viktor Örn Margeirsson skallaði að marki. Guy Smit virtist við fyrstu sýn ná að verja skalla Viktors á marklínunni en aðstoðardómarinn lyfti flaggi sínu og dæmdi mark. Hann virkaði viss í sinni sök og treystum við því að þetta hafi verið réttur dómur.

KR var þó ekki af baki dottið og minnkaði muninn á 86. mínútu. Þar var að verki varamaðurinn Stefán Árni Geirsson en hann smellti boltanum þá glæsilega í stöngina og inn eftir að Aron Kristófer Lárusson hafði skotið í varnarmann.

Einungis þremur mínútum síðar kom Jason Daði Svanþórsson Blikum aftur í tveggja marka forystu. Guy Smit átti þá glórulaust úthlaup þar sem hann missti af boltanum langt fyrir utan teig svo Jason var fyrstur á hann. Jason lék á Axel Óskar Andrésson sem reyndi að bjarga því sem bjargað varð áður en hann skoraði í opið mark.

Dramatíkin var þó ekki alveg búinn því í næstu sókn fékk KR víti. Brotið var á Eyþóri Aroni Wöhler í teignum og á punktinn steig Benóný Breki Andrésson. Hann skoraði af gífurlegu öryggi og úr urðu æsispennandi lokamínútur. 

KR-ingum tókst þó ekki að jafna metin í restina og voru það því Blikar sem fóru með stigin þrjú aftur í Kópavog.

Breiðablik er því í öðru sæti deildarinnar með níu stig eftir fjóra leiki, líkt og FH, en bæði lið eru þremur stigum á eftir toppliði Víkings. KR er hins vegar með sex stig eftir jafn marga leiki.

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

KR 2:3 Breiðablik opna loka
90. mín. Eyþór Aron Wöhler (KR) fær gult spjald Fyrir sinn þátt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka