Það var mjög notaleg tilfinning

Jón Gísli Ström og Brynjólfur Andersen Willumsson eigast við í …
Jón Gísli Ström og Brynjólfur Andersen Willumsson eigast við í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Spilamennskan var allt í lagi,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 3:1-sigur á Fjölni á Kópavogsvelli í 3. umferð Pepsi Max-deildarinnar í fótbolta. 

„Heilt yfir vorum við töluvert betri aðilinn en ég vildi sjá okkur grimmari fyrir framan markið og klára færin. Mér leið ágætlega þótt þeir minnkuðu muninn. Ég hafði kannski smá áhyggjur af því að augnablikið væri með þeim en það fór engin sérstök ónáðartilfinning um mig,“ sagði Óskar. 

Gísli Eyjólfsson kórónaði góðan leik sinn með þriðja marki Breiðabliks skömmu fyrir leikslok. „Það var mjög notaleg tilfinning og hann átti það innilega skilið. Hann er búinn að vera frábær í fyrstu leikjunum þótt hann hafi ekki náð að skora fyrr en núna. Þetta var fullkominn endir á kvöldinu.“

Kristinn Steindórsson hefur spilað afar vel undir stjórn Óskars Hrafns og skoraði hann fjórða markið í sumar sitt í öllum keppnum í kvöld. „Það vita allir að Kristinn er frábær leikmaður og góður uppi við markið. Kannski vantaði hann bara sjálfstraust og að líða vel og ég held honum líði vel hjá okkur. Það skilar sér inni á vellinum.“

Óskar fer vel af stað sem þjálfari Breiðabliks og er liðið með fullt hús stiga á toppi deildarinnar. „Það er ekkert hægt að kvarta og sennilega eins gott og það getur orðið í þessum fyrstu leikjum. Staðan í deildinni er augnabliksmynd og hún gefur þér ekkert nema að sýna þér að hlutirnir eru í ágætis málum. Við getum hins vegar gert betur á öllum sviðum leiksins,“ sagði Óskar.

mbl.is