Gefum eiginlega alltaf þrjú mörk

Frá leiknum í dag.
Frá leiknum í dag. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

„Spilamennskan var fín á köflum en það er ekki hægt að tala um góða spilamennsku þegar við gefum eiginlega alltaf þrjú mörk,“ sagði svekktur Grétar Snær Gunnarsson, leikmaður Fjölnis, í samtali við mbl.is eftir 0:3-tap fyrir FH í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í dag.

„Þetta er eiginlega síðasti þriðjungur, þetta er síðasta sendingin sem er að klikka hjá okkur. Við spilum oft vel upp, en svo klikkum við,“ bætti Grétar við. 

Varnarleikur Fjölnismanna var ekki sérstakur í mörkunum þremur sem FH skoraði og við það var Grétar ósáttur. „Við missum boltann þegar við erum ekki í stöðu og fáum þá inn fyrir. Í þriðja markinu spörkum við boltanum beint til þeirra þegar þeir pressa. Við erum að gefa þeim þessi mörk.“

Fjölnir er eina liðið sem enn hefur ekki náð í sigur, en Grétar hefur ekki miklar áhyggjur af gangi mála. „Við þurfum ekkert að vera stressaðir, mér finnst við oft spila vel og við fáum fullt af möguleikum í leikjum. Við þurfum bara að hugsa um næsta leik og fá þrjú stig.“

Guðmann Þórisson fékk tvö gul spjöld og þar með rautt hjá FH undir lokin, en fyrra spjaldið fékk hann fyrir að rífast í Grétari, er Fjölnismaðurinn lá á grasinu. 

„Ég hef ekki hugmynd, en þetta var frekar heimskulegt. Ég lá niðri og sá ekki hvað hann gerði. Hann lét mig eitthvað heyra það, en Guðmann er ekki sá gáfaðasti,“ sagði Grétar Snær.  

Grétar Snær Gunnarsson í leik með Fjölni.
Grétar Snær Gunnarsson í leik með Fjölni. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert