„Sáum ekki muninn á búningunum“

Anna María Friðgeirsdóttir í leik með Selfossi.
Anna María Friðgeirsdóttir í leik með Selfossi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði Selfoss, var ánægð í leikslok eftir að Selfoss sigraði Þór/KA 2:1 í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu á Selfossi í dag.

„Þetta var erfitt í fyrri hálfleik. Við vorum að velja vitlausar leiðir, seinar að bregðast við varnarlega og seinar í færslum. Við löguðum þetta í leikhléinu og þetta var allt annað í seinni hálfleik,“ sagði Anna María.

Hún bætti því við að það hafi ekki gert Selfyssingum gott í fyrri hálfleik að bæði lið spiluðu í dökkum búningum, Selfoss í vínrauðu og Þór/KA í svörtu, og það hafi ruglað leikmenn. Dómarakvartettinn og eftirlitsmaður KSÍ virðast hafa látið það ótalið.

„Við þorðum ekki alveg að senda boltann inn á miðjuna því við sáum ekki muninn á búningunum, það voru allir búningar svartir þegar maður horfði upp í sólina. Við við sáum bara muninn á stuttbuxunum. Þetta var betra í seinni hálfleik og þá keyrðum við bara yfir þær og spiluðum eins og við viljum spila. Spiluðum upp á okkar styrkleika, héldum boltanum og færðum hann vel. Við uppskárum tvö mörk og hefðum getað skorað fleiri,“ sagði Anna María ennfremur.

„Þetta er okkar heimavöllur og við eigum að taka öll stig sem eru í boði hér. Það var gríðarlega mikilvægt að landa þessum sigri í dag. Þetta var þolinmæðisvinna enda er Þór/KA hörkulið og fastar fyrir. Þannig að þetta var bara flott hjá okkur og örugglega skemmtilegur leikur að horfa á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert