Nýliðarnir fóru á kostum í stórsigri Íslands

Dagný Brynjarsdóttir skoraði þrennu fyrir íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu þegar liðið vann stórsigur gegn Lettlandi í undankeppni EM á Laugardalsvelli í kvöld.

Leiknum lauk með 9:0-sigri Íslands en staðan að loknum fyrri hálfleik var 6:0, Íslandi í vil.

Elín Metta Jensen kom Íslandi yfir strax á 1. mínútu af stuttu færi úr teignum og Sveindís Jane Jónsdóttir bætti við öðrum marki Íslands á 8. mínútu með hnitmiðuðu skoti af stuttu færi út teignum, hennar fyrsta landsliðsmark í sínum fyrsta A-landsleik.

Dagný Brynjarsdóttir skoraði þriðja mark Íslands á 18. mínútu þegar boltinn datt fyrir fætur hennar í teignum og hún var aftur á ferðinni, fjórum mínútum síðar, þegar hún skallaði fyrirgjöf Alexöndru Jóhannsdóttur í netið af stuttu færi úr teignum.

Sveindís Jane bætti við fimmta marki Ísland á 32. mínútu þegar hún vann boltann djúpt á vallarhelmingi Letta, keyrði á varnarmennina, og þrumaði boltanum í netið með vinstri fæti.

Dagný Brynjarsdóttir fullkomnaði svo þrennuna á 40. mínútu þegar hún skallaði fyrirgjöf Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur í netið, enn og aftur af stuttu færi úr teignum og Ísland leiddi því með sex mörkum gegn engu í hálfleik.

Á 71. mínútu átti Barbára Sól Gísladóttir fyirgjöf frá hægri sem fór af kollinum á Karlinu Miksone og í netið og staðan orðin 7:0.

Alexandra Jóhannsdóttir bætti við áttunda marki Íslands á 87. mínútu með hnitmiðuðu skoti úr markteignum eftir frábæra fyrirgjöf Barbáru Sólar og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í uppbótartíma af stuttu færi úr teignum eftir sendingu frá Hlín Eiríksdóttur.

Íslenska liðið jafnar Svía að stigum með sigrinum og er nú með 12 stig í öðru sæti F-riðils eftir fjóra leiki en Svíar hafa skoraði fjórum mörkum meira en íslenska liðið.

Ísland 9:0 Lettland opna loka
90. mín. +3 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is