Blikar sannfærandi – Þróttur vann – jafnt hjá Víkingi og KR

Davíð Ingvarsson skoraði þriðja mark Breiðabliks.
Davíð Ingvarsson skoraði þriðja mark Breiðabliks. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breiðablik fer vel af stað í Lengjubikar karla í fótbolta en liðið vann öruggan 4:0-sigur á Leikni úr Reykjavík í 4. riðli. Leikið var á Kópavogsvelli. 

Höskuldur Gunnlaugsson og Thomas Mikkelsen komu Blikum í 2:0 í fyrri hálfleik og Davíð Ingvarsson og Viktor Karl Einarsson gulltryggðu öruggan sigur í seinni hálfleik. Leiknir verður nýliði í efstu deild á komandi leiktíð.

Í sama riðli vann Þróttur 4:3-sigur á Fjölni í markaleik í Laugardalnum. Fjölnismenn komust þrisvar yfir en alltaf jafnaði Þróttur og að lokum voru það Þróttarar sem fögnuðu sigri.

Róbert Hauksson skoraði tvö mörk fyrir Þrótt og þeir Sam Hewson og Lárus Björnsson skoruðu einnig. Hewson er nú spilandi aðstoðarþjálfari Þróttar. Guðmundur Karl Guðmundsson, Sigurpáll Melberg Pálsson og Hallvarður Óskar Sigurðarson skoruðu mörk Fjölnis. 

Víkingur úr Reykjavík og KR skildu jöfn, 1:1, á Víkingsvelli. Guðjón Baldvinsson kom KR yfir á 59. mínútu en Víkingar jöfnuðu á 87. mínútu og þar við sat. Guðjón er kominn til liðs við KR á ný eftir tíu ára fjarveru.

Þá vann Afturelding öruggan 3:0-sigur á Víkingi frá Ólafsvík á heimavelli í riðli 1. Valgeir Árni Svansson og Jordan Tyler komu Aftureldingu í 2:0 en þriðja markið var sjálfsmark. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert