Fylkir í átta liða úrslitin þrátt fyrir tap

Fylkismenn fagna jöfnunarmarki sínu í dag.
Fylkismenn fagna jöfnunarmarki sínu í dag. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Breiðablik tók á móti Fylki í riðli 4 í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag. Breiðablik hafði að lokum 2:1 sigur og fara bæði liðin áfram í átta liða úrslitin.

Fylkir mætir þar Stjörnunni en Breiðablik leikur gegn KA eða HK.

Breiðablik tók forystuna á 12. mínútu þegar danski markahrókurinn Thomas Mikkelsen skoraði. Skömmu fyrir leikhlé varð Damir Muminovic svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark og því var staðan jöfn, 1:1, í hálfleik.

Á 62. mínútu dró til tíðinda þegar Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis, fékk beint rautt spjald. Arnór Borg Guðjohnsen og Viktor Örn Margeirsson áttu þá í einhverjum orðaskiptum, Ragnar Bragi hljóp á vettvang, reifst aðeins við Oliver Sigurjónsson og kleip hann í punginn. Fyrir þessa gripdeild fékk Ragnar Bragi reisupassann.

Á 81. mínútu kom Viktor Karl Einarsson Blikum yfir að nýju. Fylkismenn náðu að halda út það sem eftir lifði leiks og reyndist það mikilvægt.

Hefði liðið fengið á sig eitt mark til viðbótar hefði Leiknir Reykjavík tekið annað sætið í riðli 4 á fleiri mörkum skoruðum. Það gerðist þó ekki og Breiðablik, sem var þegar búið að tryggja sér sæti í átta liða úrslitinum, endar með fullt hús stiga og Fylkir með 9 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert