5. sæti: Þjálfarinn að reyna að vera fyndinn

Daníel Laxdal og Steven Lennon, leikmaður FH, eigast við í …
Daníel Laxdal og Steven Lennon, leikmaður FH, eigast við í leik Stjörnunnar og FH í Garðabænum á síðustu leiktíð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sam­kvæmt spá Morg­un­blaðsins og mbl.is mun Stjarnan úr Garðabæ enda í fimmta sæti úr­vals­deild­ar karla í knatt­spyrnu, Pepsi Max-deild­ar­inn­ar, á kom­andi keppn­is­tíma­bili.

Fimmtán íþróttaf­rétta­menn og leik­lý­send­ur spáðu fyr­ir um lokaröð liðanna og flest­ir gerðu ráð fyr­ir því að hlut­skipti Stjörnunnar yrði að sitja eftir í baráttunni um efstu sætin í deildinni í ár og verða að gera sér fimmta sætið að góðu. Stjarnan endaði í þriðja sæti í fyrra og hefur ekki farið neðar en í fjórða sæti frá 2012.

„Þessi spá er í takt við spárnar undanfarin ár og það er alltaf skemmtilegast að fá tækifæri til þess að afsanna þær,“ sagði Daníel Laxdal í samtali við mbl.is.

„Leikmannahópurinn lítur mjög vel út og það eru allir leikmenn tilbúnir og klárir í slaginn. Það er vissulega erfiðara að gíra sig upp eftir mislöng hlé og æfingarnar sem maður þarf að gera eru hundleiðinlegar. Þú færð lítið að æfa með bolta en á sama tíma er enn þá skemmtilegra að byrja aftur og fá loksins að æfa með bolta.

Síðasta æfingabann hafði engin teljandi áhrif á okkur og við ættum allir að vera í góðu standi enda búnir að hlaupa mikið síðustu vikur. Loksins er mótið að byrja og það eru allir spenntir í Garðabænum að byrja spila fótbolta á nýjan leik,“ sagði Daníel.

Þorvaldur Örlygsson kom inn í þjálfarateymi Stjörnunnar eftir síðasta tímabil eftir að Ólafur Jóhannesson lét af störfum en Þorvaldur og Rúnar Páll Sigmundsson stýra Garðbæingum saman í sumar.

„Toddi [Þorvaldur Örlygsson] hefur komið mjög vel inn í þetta finnst mér. Ég fíla hann mjög vel og hann og Rúnar Páll [Sigmundsson] eru mun líkari en til dæmis Rúnar og Óli [Ólafur Jóhannesson].

Þeir virðast vera með mjög svipaðar pælingar og vonandi gengur þetta samstarf bara eins og best verður á kosið í sumar.“

Þorvaldur Örlygsson kom inn í þjálfarateymi Stjörnunnar fyrir Ólaf Jóhannesson …
Þorvaldur Örlygsson kom inn í þjálfarateymi Stjörnunnar fyrir Ólaf Jóhannesson síðasta haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Engar Hollywood-ræður

Daníel var gerður að fyrirliða Stjörnunnar fyrir tímabilið en Rúnar Páll, þjálfari liðsins, lét hafa eftir sér á dögunum að Daníel hefði ekki verið nægilega þroskaður til þess að bera bandið fyrir nokkrum árum.

„Rúnar Páll var að reyna að vera eitthvað fyndinn í einhverju viðtali. Ég var fyrirliði fyrir nokkrum árum síðan og það truflaði mig aðeins. Ég var alltaf að hugsa um það í upphitun hvernig ég ætti að peppa strákana fyrir leik.

Ég er ekki mikið fyrir það að tala og tjá mig heldur vil ég frekar láta verkin tala inni á vellinum. Ég ákvað þess vegna að gefa frá mér fyrirliðabandið á sínum tíma en kannski er maður orðinn nægilega þroskaður núna.“

Stjarnan endaði í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð en liðið ætlar sér að berjast um Íslandsmeistaratitilinn í ár.

„Ég er aldrei að fara að koma með einhverjar „Hollywood-ræður“ fyrir leiki. Það verður bara gamla góða „Berjast!“ og svo fara menn bara út á völl. Ég vil leiða með góðu fordæmi innan vallar og reyna að fá menn með mér áfram þar.

Við erum með góðan hóp í ár og við eigum að geta barist á toppnum því við viljum vera í titilbaráttu allt tímabilið. Það verður gott að fá Silfurskeiðina aftur á völlinn og alla áhorfendur. Þeir breyta leikjum, sérstaklega ef illa gengur, og maður vill gera þetta fyrir fólkið sitt í stúkunni,“ bætti Daníel við.

STJARNAN
Þjálfari: Rúnar Páll Sigmundsson.
Árangur 2020: 3. sæti.

Komnir:
Magnus Anbo frá AGF (Danmörku) (lán)
Oscar Borg frá Arenas (Spáni)
Arnar Darri Pétursson frá Fylki
Einar Karl Ingvarsson frá Val
Ólafur Karl Finsen frá Val
Tristan Freyr Ingólfsson frá Keflavík (úr láni)

Farnir:
Ólafur Bjarni Hákonarson í Njarðvík (var í láni hjá Víkingi Ó.)
Guðjón Baldvinsson í KR
Guðjón Pétur Lýðsson í Breiðablik (úr láni)
Alex Þór Hauksson í Öster (Svíþjóð)
Jósef Kristinn Jósefsson, hættur
Jóhann Laxdal, hættur
Ævar Ingi Jóhannesson, hættur
Vignir Jóhannesson, hættur

Fimm fyrstu leikir Stjörnunnar:
1.5. Stjarnan - Leiknir  R.
9.5. Keflavík - Stjarnan
13.5. Stjarnan - Víkingur R.
17.5. ÍA - Stjarnan
21.5. Breiðablik - Stjarnan

Leikir Stjörnunnar í Lengjubikarnum í vetur:
Stjarnan - Vestri 3:2
Stjarnan - ÍA 2:0
Stjarnan - Grótta 3:2
Stjarnan - Keflavík 2:0
Stjarnan - Selfoss 1:2
Stjarnan - Fylkir 4:2
Flest mörk: Emil Atlason 4.

Nánar verður fjallað um lið Stjörnunnar í Morgunblaðinu í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert