„Á brattann að sækja þegar KR kemst yfir“

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, í leiknum í kvöld.
Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, í leiknum í kvöld. Eggert Jóhannesson

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, sagði KR-inga einfaldlega hafa verið yfir í leik liðanna í fyrstu umferð Pepsi Max-deildarinnar í kvöld, þar sem KR skoraði tvö mörk á fyrsta kortérinu og vann að lokum 2:0.

„Þeir komast náttúrulega yfir snemma. Óskar [Örn Hauksson] setur mark og þá líður þeim best. Þeir eru helvíti góðir í því að verja markið sitt. Þeir nýta sér sendingamistök af okkar hálfu.

Við vorum ólíkir sjálfum okkur í auðveldum sendingum sem voru að klikka. Síðan kemur annað markið stuttu seinna í fyrri hálfleik og það er bara á brattann að sækja þegar KR kemst yfir á móti þér,“ sagði Höskuldur í samtali við mbl.is eftir leik.

Hann sagðist ekki geta fundið eitthvað ákveðið sem hafi farið úrskeiðis hjá Blikum í kvöld. „Ég veit nú svo sem ekkert hvað á að skrifa þetta á. Þeir voru bara yfir í dag. Það er ekki flóknara en það.“

Breiðablik lék betur í síðari hálfleiknum og fengu ágætisfæri en náðu þó ekki að minnka muninn. „Í seinni hálfleiknum eru þeir komnir aftar og þá skiljanlega erum við svolítið mikið með boltann á þeirra vallarhelmingi og erum að reyna að setja boltann inn í teig.

Við fáum svo sem ágætishálffæri en það er erfitt að brjóta þá á bak aftur. KR komnir yfir og þeir kunna að verja markið sitt. Það er bara að ýta þessum leik frá og sex dagar í næsta leik,“ sagði Höskuldur að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert