„Við börðumst fyrir hver annan“

Höskuldur Gunnlaugsson í leiknum í kvöld.
Höskuldur Gunnlaugsson í leiknum í kvöld. Eggert Jóhannesson

„Þetta var nú bara bónus ofan á hrikalega flotta frammistöðu hjá liðinu,“ segir Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks og maður leiksins, um mark sitt í uppbótartíma, sem kórónaði sannfærandi 4:0 heimasigur Blika á nágrönnum sínum í Stjörnunni í 5. umferð Pepsi Max-deildar karla í kvöld. 

Höskuldur segir aðspurður að sigur Blika í kvöld hafi sprottið upp úr hinu erfiða 3:0 tapi þeirra gegn Víkingum í síðustu umferð. „Við horfðum aftur á leikinn, og fórum í smá naflaskoðun, leikmenn og allir í liðinu, og þessi liðsheild og vinnuframlag fyrir hver annan [sem Blikar sýndu í kvöld] var alls ekki til staðar á móti Víkingum, og við heimtuðum að fá það upp aftur strax,“ segir Höskuldur. „Þessi vilji til þess að fara í tæklingar fyrir hver annan og hlaupa fyrir hver annan skein af okkur í kvöld.“

Blikar urðu fyrir áfalli snemma leiks í kvöld þegar Thomas Mikkelsen fór meiddur af velli á 10. mínútu. Kristinn Steindórsson kom hins vegar í skarðið og átti frábæran leik. „Við erum með breiðan og góðan hóp, við höfum verið að rótera mikið, og það er einkenni á góðum hópi að maður kemur í manns stað,“ segir Höskuldur, en viðurkennir um leið að vont sé að missa Thomas Mikkelsen. Segist hann vona að Thomas verði klár aftur í slaginn eftir landsleikjahléið sem nú stendur fyrir dyrum hjá Blikum. 

Spurður um hvernig Blikar geti nú byggt á þessum sigri segir Höskuldur nauðsynlegt að sinna grunnvinnunni, sem hafi verið í lagi í kvöld. „Þetta er auðvitað klisja, en þegar maður leggur inn grunnvinnuna, þá koma gæðin í ljós, þannig að við náðum að sýna þau í verki.“

Hafði umræðan um félagaskipti Sölva Snæs Guðbjargarsonar einhver áhrif á undirbúning Blika? „Nei, nei, alls ekki. Sölvi er hrikalega efnilegur og flottur fótboltastrákur,“ segir Höskuldur og bætir við að umræðan hafi líklega verið mest hjá einhverjum áhangendum á Twitter, sem hafi ætlað að kynda undir. „Sölvi er ekkert smá flottur og heilsteyptur gæi sem lofar mjög góðu. Við erum alla vegana ánægðir að fá hann í okkar raðir,“ segir Höskuldur að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert